Fáum 16.000 tonn af makríl við Grænland

Deila:

Á grundvelli sérstaks samkomulags sem gert var á fundi íslensk grænlensku fiskveiðinefndarinnar sem haldinn var 28. febrúar til 1. mars sl. hafa íslensk skip fengið heimild til að veiða alls 16.000 tonn af makríl í grænlenskri lögsögu til löndunar í íslenskri höfn.  Skv. reglugerð nr. 620/2012 eru veiðar íslenskra skipa á deilistofnum í lögsögu annarra ríkja óheimilar án sérstaks leyfis Fiskistofu.

Umsóknir um leyfi til veiða í grænlenskri lögsögu skulu sendar á fiskistofa@fiskistofa.is ásamt veiðileyfi til veiða frá grænlenskum stjórnvöldum og staðfestu samkomulagi við grænlenska útgerð um aflaheimildir.

Eftirfarandi skilyrði gilda fyrir veitingu leyfis:

  1.  Heimildin tekur eingöngu til skipa sem skráð eru á Íslandi og eingöngu til afla sem ætlaður er til manneldis, hvort sem hann er unninn um borð í vinnsluskipi eða landað í íslenskri höfn til manneldisvinnslu.
  2.   Íslensk skip skulu sýna fram á að þau hafi leyfi til veiða í grænlenskri lögsögu og hafi staðfest samkomulag við grænlenska útgerð um aflaheimildir.
  3. Halda skal makrílafla sem veiðist í grænlenskri lögsögu aðskildum frá makríl sem veiðist í íslenskri lögsögu og gera skal jafnframt sérstaka skýrslu um hann. Skipstjóri skal, svo fljótt sem verða má eftir að veiðum lýkur, en eigi síðar en 4 klukkustundum eftir að komið er til hafnar, senda Fiskistofu skýrslu um áætlaðan makrílafla í viðkomandi veiðiferð á því formi sem Fiskistofa ákveður. Í skýrslunni skal í það minnsta koma fram afli skipsins sundurliðaður eftir tegundum innan fiskveiðilandhelgi Grænlands.
  4.  Komi síld sem meðafli við makrílveiðar íslenskra skipa í grænlenskri lögsögu skulu tekin sýni úr þeim afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð, og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera 50 stk. af síld, sem valin eru af handahófi. Gæta skal þess að sýni sé tekið í öllum tilkynningaskyldureitum þar sem skipið stundar veiðar. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnun þegar að lokinni veiðiferð.
  5. Um tilkynningar að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar nr. 285/2014 þar sem það á við. Um tilkynningar til Grænlands vegna veiða innan grænlensku lögsögunnar fer samkvæmt reglum þarlendra stjórnvalda.

 

Deila: