Og allir komu þeir aftur

Deila:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, ritar eftirfarandi pistil á heimasíðu samtakanna í tilefni sjómannadagsins fyrr í þessum mánuði:

Markmiðið á alltaf að vera að enginn sjómaður farist á sjó og vinnu við það markmið má aldrei ljúka

Það sem af er ári 2017 hefur enginn sjómaður týnt lífi á sjó hér við land. Það er mikið gleðiefni. Ár án dauðaslysa á þó ekki að teljast frétt. Markmiðið á alltaf að vera að enginn sjómaður farist á sjó og vinnu við það markmið má aldrei ljúka.

Á undanförnum áratugum hefur dauðaslysum á sjó blessunarlega fækkað verulega, en árið 2008 var fyrsta árið sem enginn sjómaður fórst á sjó. Margt hefur þar áhrif. Má þar helst nefna breytt sóknarmynstur, færri en jafnframt stærri og betur útbúin skip, öflugar slysavarnir og björgunarsveitir, betri björgunartæki og vel þjálfaðar áhafnir sem geta tekist betur á við neyðartilvik. Samfara þessu hefur orðið mikil vitundarvakning á meðal sjómanna og útgerða um öryggismál. Þetta er ánægjuleg þróun.

Íslensk skip eru vel búin björgunartækjum og strangar reglur gilda um björgunar- og öryggisbúnað um borð. Góður tækjabúnaður til björgunar skiptir miklu máli. Þá er nauðsynlegt að sjómenn kunni á hann og geti brugðist rétt við þegar á þarf að halda. Stofnun Slysavarnaskóla sjómanna um miðjan níunda áratuginn skipti sköpum í þessum efnum og efldi verulega öryggisfræðslu sjómanna. Í dag fæst sjómaður ekki lögskráður á skip nema hann hafi lokið námskeiði í öryggismálum og gerð er krafa um endurmenntun á fimm ára fresti. Á námskeiðum skólans fá sjómenn m.a. fræðslu um sjóbjörgun, eldvarnir, skyndihjálp og öryggismál. Fræðslan hefur skilað sér í vel þjálfuðum áhöfnum sem geta brugðist rétt við aðstæðum hverju sinni.

Aukin fræðsla, þjálfun sjómanna og útgáfa efnis um öryggismál eru forgangsverkefni sem talin eru upp í áætlun um öryggi sjófarenda sem unnið hefur verið eftir af hálfu Samgöngustofu frá árinu 2003. Samgöngustofa hefur gefið út aðgengilegt efni um öryggismál sjómanna og mikilvægt er að slíkt efni sé uppfært reglulega.

Miklar framfarir um borð

Slys verða enn á sjó þótt þeim hafi fækkað mikið undanfarna áratugi og sér í lagi slysum sem leiða til örkumlunar. Öryggisvesti með neyðarsendi, flotgallar, hjálmar, öryggislínur við skutrennur, hlífðarfatnaður o.fl. eru sjálfsagður búnaður í dag. Allar vinnuaðstæður hafa einnig orðið betri og öruggari með nýjum og tæknivæddari skipum. Aðstæður um borð hafa raunar tekið stórstígum framförum með fjárfestingum umliðinna ára. Við hönnun nýrra skipa sem hafa komið til landsins að undanförnu hafa öryggismál verið tekin föstum tökum. Fækkun slysa hefur þar verið í forgrunni. Í þessu sambandi má nefna hönnun lestar í nýjum ísfisktogara HB Granda, Engey, þar sem lestarvinna hefur verið færð upp á vinnsluþilfar. Þegar lokið er við að raða fiski í kar tekur við sjálfvirkt lestarkerfi sem flytur karið niður í lest. Með þessu nýja kerfi gjörbreytast vinnuaðstæður til hins betra.

Með nýrri tækni geta skapast nýjar og áður ófyrirséðar slysahættur. Um þetta eru útgerðir meðvitaðar og fjöldi útgerða hefur að undanförnu ráðið sérstaka öryggisstjóra. Unnið er áhættumat, verklýsingar og öryggisreglur og áhersla er lögð á innleiðingu öryggisstjórnunarkerfa um borð. Innleiðing og notkun öryggisstjórnunarkerfa byggjast á þátttöku allra þeirra sem hlutverk hafa um borð. Öryggisstjórar gegna því veigamiklu hlutverki að fylgja því eftir að eftirlit sé virkt og að bæði öryggisreglum og verkferlum sé fylgt til að koma í veg fyrir slys og að rétt sé brugðist við beri slys að höndum.

Þegar öllu er á botninn hvolft er öruggasta björgunartækið skipið sjálft og þeir sjómenn sem á því starfa. Vel útbúið skip og þjálfuð áhöfn skipta höfuðmáli þegar á reynir.

Dauðaslysum á sjó hefur fækkað umtalsvert á umliðnum árum og slysatíðni hefur minnkað. Það er hins vegar enn verk að vinna og markmiðið er að gera enn betur. Sjómenn eiga með réttu að gera miklar kröfur til útgerða, þannig að allar aðstæður til sjós verði til fyrirmyndar. Það er enda hluti af samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs að störf til sjós séu bæði örugg og eftirsóknarverð.

Á þessum sjómannadegi minnist SFS þeirra sjómanna sem hafið hefur tekið og þakkar bæði sjómönnum og fjölskyldum þeirra fyrir ómetanlegt framlag til atvinnugreinarinnar og samfélagsins alls.

 

Deila: