Sjávarútvegsskólinn á Ísafirði byrjaður
Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar hefur tekið til starfa, en þetta er annað árið í röð sem skólinn er starfræktur. Skólinn er með svipuðu sniði og í fyrra.
Krökkum í Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar sem eru að klára 8. bekk býðst að skrá sig í skólann í eina viku og fá að kynnast fyrirtækjum og stofnunum í Ísafjarðarbæ sem eru tengd sjávarútvegi. Námið er byggt upp með bæði fyrirlestrum og með heimsóknum en markmiðið er að tengja ungt fólk betur við sjávarútveg og tengda starfsemi á sínu heimasvæði. Vonast er til að kveikja hjá þeim áhuga og gefa krökkunum hugmyndir um mismunandi störf sem gætu beðið þeirra að loknu námi í framtíðinni.
Forsprakkar skólans eru félagarnir Anton Helgi Guðjónsson og Gauti Geirsson en þeir hafa unnið að skipulagningu á skólanum í náinni samvinnu við Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Ísafjarðarbæ og Guðbjörn Pál Sölvason kennara hjá Fræðslumiðstöðinni. Það eru hinsvegar fyrirtækin sem fyrst og fremst gera skólanum kleift að starfa, en eftirtalin fyrirtæki eru aðilar að Sjávarútvegsskólanum: Hraðfrystihúsið-Gunnvör, Skaginn 3X, Kampi, Íslandssaga, Klofningur, Fjarðanet, Kerecis, Aldan ÍS 47, Hafrannsóknastofnun og Matís.
Mynd og texti af bb.is