Bloggað um leiðangra

Deila:

Kórallar leiðangrar

Nú standa yfir tveir rannsóknaleiðangrar Hafrannsóknastofnunar. Annars vegar er um að ræða leiðangurinn Kortlagningu búsvæða við Ísland. Markmið leiðangursins er að kortlegga búsvæði tveggja svæða vestur af landinu, á landgrunninu og í kantinum. Fyrra svæðið er um 5900 km2 að stærð og staðsett 85 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Þar eru fjölbreytt botnlag og ýmsar upplýsingar benda til að kórala sé að finna á þessu svæði. Hitt svæðið er út af Vestfjörðum, 7000 km2. Þar eru einhver mestu fiskimið Íslands en einnig benda ýmsar heimildir til að svampasvæði séu á þessum slóðum. Leiðangurinn hófst 29. júní sl. og er áætlað að honum ljúki 7. þ.m.

Hinn leiðangurinn er alþjóðlegur rannsóknaleiðangur sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í áttunda árið og nefnist International Summer Survey of the Seas. Í leiðangrinum eru stundaðar rannsóknir á uppsjárvarlífríki norðaustur Atlantshafs að sumarlagi. Alls taka fimm skip þátt og koma þau frá Noregi, Færeyjum og Grænlandi, auk Íslands. Markmið leiðangursins er að rannsaka alla hlekkina í uppsjávarvistkerfinu frá frumframleiðni sjávar til hvala. Leiðangurinn hófst í gær, 3. júlí, og mun standa yfir í 30 daga. Á þeim tíma verða teknar verða 80 t0gstöðvar og sigldar um 6000 sjómílur.

Þetta árið hafa leiðangursmenn í þessum tveimur leiðangrum ákveðið að blogga í þeim tilgangi að miðla upplýsingum um það sem á daga þeirra drífur; frá vísindunum, lífinu um borð og ýmsum uppákomum.

Hægt er að fylgjast með hér:
Kortlagning búsvæða – https://hafsbotninn.wordpress.com/
International Summer Survey of the Seas – https://pelagicecosystemsurvey.wordpress.com/

Hér er svo hægt að fylgjast með ferðum rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar.

 

Deila: