Enn selja Norðmenn meira af fiski
Útflutningur Norðmanna á helstu botnfisktegundum á fyrri helmingi þessa árs skilaði meiri verðmætum en nokkru sinni áður á sama tímabili. Aukningin er mest í hefðbundnum afurðum og sölu á heilum fiski, ferskum og frystum.
Alls fluttu Norðmenn út 249.000 tonn af svo kölluðum hvítfiski, þorski, ýsu, ufsa og öðrum tegundum, að verðmæti 101 milljarður íslenskra króna. Það er aukning um 9% í magni og 10% í verðmæti. Mest er aukningin í þurrkuðum saltfiski og heilum fiski, en verð á flökum, bæði frystum og ferskum hefur lækkað.
Útflutningur þessara fiskafurða í júní skilaði ríflega 16 milljörðum íslenskra króna, sem er vöxtur um 32% miðað við sama mánuð í fyrra.
Á fyrri helmingi ársins jókst útflutningur á fiski til frekari vinnslu í Kína verulega og mest í heilfrystri ýsu.
Útflutningur á ferskum þorski nam 54.000 tonnum að verðmæti 22,4 milljarðar íslenskar krónur. Það er vöxtur um 4.000 tonn í magni og 10% í verðmæti. Aukinn útflutningur á síðari hluta tímabilsins skýrist af góðum afla í lok vertíðar, en smærri fiskur hefur leitt til lægra afurðaverðs
Útflutningur á heilfrystum fiski til Kína hefur aldrei verið meiri á þessum tíma árs. Magnið er 10.000 tonnum meira en á sama tíma í fyrra og rúmlega 3.000 tonnum meira en metárið 2014. Verðmætið nú er 38% meira en þá. Eins og áður sagði munar þar mest um heilfrysta ýsu.
Þá fluttu Norðmenn út 20.000 tonn af blautverkuðum saltfiski, sem er heldur minna en á sama tíma í fyrra. Auk þessa fóru utan 42.000 tonn af þurrkuðum saltfiski á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er aukning um 6.700 tonn eða 19% og verðmætið jókst um 14%. Í þessu tilfelli munar mest um saltaðan og þurrkaðan ufsa.
Loks má nefna að útflutningur Norðmanna á skreið jókst á umræddu tímabili. Alls fóru utan 2.000 tonn af skreiðinni og var það aukning um 4%, en verðmæti útflutningsins hækkaði um 8%. Meira fór nú af skreið, bæði til Ítalíu og Nígeríu en í fyrra.