Ásættanlegt að sjöfalda laxeldi á Íslandi

Deila:

Hafrannsóknastofnun leggur til að ekki verði leyft eldi á frjóum  laxi í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá. Niðurstöður áhættumats stofnunarinnar eru því að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum. Hér er um að ræða um sjöfalda núverandi ársframleiðslu í íslensku laxeldi sem nú er um 10.000 tonn.

Hafrannsóknastofnun hefur lokið við áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi. Unnið var áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Matið var unnið í samstarfi með erlendum sérfræðingum á sviði stofnerfðafræði. Áhættumatið verður sannreynt og uppfært reglulega með viðamikilli vöktun í laxveiðiánum. Getur það leitt til aukningar eða minnkunar á æskilegu leyfilegu magni á frjóum laxi í sjókvíaeldi.

Frumforsenda greiningarinnar er að náttúrulegir laxastofnar skaðist ekki. Sé tekið tillit til varúðarsjónarmiða er miðað við að fjöldi eldislaxa verði ekki meira en 4% í ánum en erfðablöndun verði mun lægri. Notuð voru bestu fáanleg gögn bæði innan lands og utan. Búið var til dreifingarlíkan sem sýnir hvernig eldislax getur dreifst frá eldissvæðum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Fjöldi eldislaxa sem getur komið í ár er háður fjarlægð frá eldissvæði og umfangi eldisins.

Líkanið gerir almennt ráð fyrir litlum áhrifum á náttúrulega stofna fyrir utan nokkrar ár. Nokkur áhrif verða á Laugardalsá, Hvannadalsá/Langadalsá í Ísafjarðardjúpi en Breiðdalsá í Breiðdalsvík er sú á sem virðist í mestri hættu. Þessar ár þarf að vakta sérstaklega. Af þessum ástæðum er lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá. Niðurstöður matsins eru því að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum. Hér er um að ræða um sjöfalda núverandi ársframleiðslu í íslensku laxeldi sem nú er um 10.000 tonn. Helsta ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er sú að eldissvæðin eru í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og laxeldi er bannað á mjög stórum hluta strandlengjunnar. Í Noregi og Skotlandi eru eldissvæðin hins vegar í mjög mikilli nálægð við helstu laxveiðiár og því verða blöndunaráhrifin mun meiri í þessum löndum. Áhættumatslíkanið er fyrst og fremst hugsað sem gagnvirkt verkfæri til þess að meta mögulegt umfang erfðablöndunar á hlutlægan hátt.

Til viðbótar eru lagðar til mótvægisaðgerðir til að sporna við erfðablöndun. Þeirra helstar eru að leggja enn meiri áherslu á að næg hrygning sé ávallt til staðar í náttúrulegum laxveiðiám. Þá er lagt til að stór gönguseiði verði notuð í eldinu í meira mæli en nú er. Það dregur bæði úr hættu á slysasleppingum og kemur eldinu einnig til góða. Þá er lagt til að kynbótum verði flýtt á eldisstofninum á þann veg að kynþroskastærð/aldur hækki með því að skima burt arfbera fyrir snemmkynþroska í eldisstofninum. Það hefur þau áhrif að mun lægra hlutfall laxa er kynþroska við slátrun og dregur enn frekar úr hættu sem stafar frá þeim laxi auk þess að auka verðmæti sláturfisksins. Ef tekst að koma þessum aðgerðum í framkvæmd er mögulegt að endurmeta matið til hækkunar.

Þessu til viðbótar er unnt að ala ófrjóan lax. Auka þarf rannsóknir og tilraunir með ófrjóan lax á Íslandi við þær aðstæður sem hér eru. Þetta verði gert í samvinnu við erlenda rannsóknaraðila og eldisfyrirtækin í landinu. Í samræmi við framangreint er óhætt að ala auk 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land og allt að 61.000 tonn af ófrjóum laxi miðað við núverandi burðarþolsmat fyrir þessi svæði. Eldi á ófrjóum laxi á Vestfjörðum getur því orðið allt að 30.000 tonn til viðbótar við 50.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi og á Austfjörðum getur eldi á ófrjóum laxi orðið 31.000 tonn til viðbótar við framleiðslu á 21.000 tonnum af frjóum laxi. Aðrir þættir geta jafnframt takmarkað umfang eldisins eins og endurskoðað burðarþol, óæskileg áhrif laxalúsar, stærð heppilegra eldissvæða og ef vart verður við óæskileg áhrif á hrygningu eða uppeldi nytjastofna  sjávar (þorskur, ýsa, rækja og fleiri tegundir). Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi mun vinna með niðurstöður áhættumatsins í störfum sinum sem og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar.

 

Deila: