Makríllinn er dreifður

Deila:

,,Það er frekar erfitt ástand á makrílnum. Hann virðist vera mjög dreifður og það er erfitt að hitta á hann. Veiðin dregur dám af því og hefur verið frekar léleg,“ sagði Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi AK, er heimasíða HB Granda náði tali af honum í gær.

Víkingur var þá farinn frá Vopnafirði eftir að hafa komið þangað með um 400 tonn af makríl sem fengust í nágrenni Vestmannaeyja. Skipið var á leið á miðin og statt út af Loðmundarfirði er samband náðist við Hjalta.
Að sögn Hjalta hefur makrílveiðin oft byrjað úr af Papagrunni og síðan færst vestur undir Eyjar. Þá hefur veiðin tekið sig upp að nýju fyrir austan.
,,Við vitum ekkert um það sem kann að gerast núna. Það er eins og að smærri makrílinn vanti í aflann og uppistaða aflans hjá okkur er rígvænn fiskur eða um 400 grömm að jafnaði. Það hefur slæðst síld með en þó ekki í miklum mæli.“
Hjalti segir að stefnan hafi verið tekin á Vestmannaeyjar en fylgst verði með ástandinu á leiðinni.
,,Venus NS er á miðunum og fékk 100 tonn í nótt. Staðan núna virðist vera þokkaleg en hve lengi það helst er spurningin. Það eru tiltölulega fá skip á makrílveiðum enn sem komið er og fyrir vikið er ekki mikið um upplýsingar,“ sagði Hjalti Einarsson.
 

 

Deila: