Katalóníusaltfiskur með rauðu pestói
Stundum velta kannski einhverjir fyrir sér hvernig það sé með eldamennsku úti á sjó. Hvort kallarnir vilji heldur fisk eða kjöt. Hvort þeir fái ekki nóg af fiski í aðgerðinni og fúlsi þess vegna við fiskinum ef kokkinum dettur í huga að bera hann á borð. En auðvitað er það ekki þannig, kokkar úti á sjó eins og í landi leggja áherslu á fjölbreytt og hollt fæði um borð og kallarnir hugsa auðvitað um heilsuna og vilja fá góðan fisk í matinn.
Á sjónum er margur listakokkurinn og einn þeirra er Bjarni B. Eiríksson matsveinn á Tómasi Þorvaldssyni GK. Við á kvótanum ákváðum að leita til hans eftir góðri uppskrift af fiski og ekki stóð á henni. Þessi fíni saltfiskréttur sem féll vel í kramið hjá sísvöngum sjómönnum. Þetta er fremur stór uppskrift, en lítið mál að smækka hana. Einnig má fá útvatnaðan saltfisk í verslunum.
Innihald:
2 miðlungsstór saltfiskflök
1 krukka rautt pestó
1 krukka sólþurrkaðir tómatar
1 krukka grænar ólívur
4 sætar kartöflur
250 gr smjör
Aðferð:
Útvatnið fiskinn mjög vel og skiptið um vatn á honum 4 til 5 sinnum. Saxið tómatana og ólívur niður og blandið saman við pestóið. Gott að láta alla olíuna af tómötunum og ólífunum með. Blandið þetta vel saman.
Skerið fiskinn í passlega stóra bita og setja gumsið ofan á hvert stykki fyrir sig og bakið í ofni á 180 gr í 20 mínútur.
Sætu karöflurnar eru afhýddar og soðnar í vatni. Því er síðan hellt af og smjöri bætt útí og stappað.
Meðlæti fallegt salat að suðrænum hætti, kál tómatar, mango, rauðlaukur og ananasbitar.
Kokkurinn mælir með ísköldu góðu hvítvíni með.