Skipstjóri bætist í hóp starfsmanna Hampiðjunnar

Deila:

Nýlega var Sæmundur Árnason skipstjóri ráðinn til starfa í veiðarfæradeild Hampiðjunnar á Íslandi.

Sæmundur kemur frá Ólafsfirði. Hann er kvæntur og þriggja barna faðir. Hann hefur starfað um árabil sem skipstjóri og stýrimaður á togurum. Sæmundur hefur þar af leiðandi mikla reynslu í notkun veiðarfæra bæði við botntroll- og flottrollsveiðar.

Sæmundur er 47 ára gamall og útskrifaðist frá stýrimannaskólanum á Dalvík 1992. Hann hefur um það bil 25 ára reynslu til sjós sem stýrimaður og skipstjóri. Með námi og eftir nám í stýramannaskólanum starfaði hann sem stýrimaður á Súlunni EA og var hann þar í um 3 ár.

Frá árinu 1994 til 1998 starfaði Sæmundur sem stýrimaður á Múlabergi ÓF og síðan frá árinu 1998 til 2008 sem 1. stýrimaður á Mánabergi ÓF. Í september 2008 tók Sæmundur við sem annar tveggja skipstjóra á Kleifabergi RE og var hann þar í sex ár samfleytt. Á árunum 2014 til 2016 var hann annar tveggja skipstjóra á Brimnes RE. Reynslan er því víðtæk og góð.

Störf hans hjá Hampiðjunni verða aðallega fólgin í sölu og markaðsstörfum tengdum veiðarfærum og öðrum búnaði svo sem hlerum og DynIce togtaugum jafnfram því að vera tæknilegur ráðgjafi við notkun veiðarfæra og hlera til sjós.

 

Deila: