SFÚ kallar eftir frjálsum strandveiðum í ágúst    

Deila:

„Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) tekur undir kröfur Landssambands smábátaeigenda um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hækki aflaviðmiðun til strandveiða í ágúst þannig að ekki komi til stöðvunar veiða,“ segir í frétt frá samtökunum. Það segir ennfremur.

„Vegna langvinns sjómannaverkfalls í byrjun þessa árs verður afli á Íslandsmiðum mun minni á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir við úthlutun aflaheimilda. Ráðherra hefur komið til móts við stórútgerðina með því að heimila fordæmalausa 30 prósent hliðrun afla milli fiskveiðiára. Þessi hliðrun hefur hins vegar þau áhrif að einungis strandveiðifiskur, berst nú á markaði og stærri fiskvinnslur, sem eru hluti af lóðrétt samþættum sjávarútvegsfyrirtækjum, koma inn á kauphlið og skapa tilfinnanlegan skort fyrir smærri vinnslur, sem reiða sig eingöngu á fiskmarkaðsfisk sem hráefni.

Mikilvægt er að ráðherra hafi hagsmuni fleiri aðila en stórútgerðarinnar og lóðrétt samþættra fyrirtækja í greininni í fyrirrúmi. Nauðsynlegt er að bregðast við strax og tryggja samfelldar strandveiðar allan ágúst. Það verður einungis gert með því að hækka aflaviðmiðun til strandveiða í ágúst. Slík hækkun getur með engu móti ógnað stofnstærð eða viðhaldi stofna á Íslandsmiðum, ekki síst með hliðsjón af því að ráðherra hefur þegar hliðrað 30 prósent ársúthlutunarinnar yfir á næsta fiskveiðiár.

Strandveiðiaflinn, sem hlutfall af þorskkvóta, hefur dregist verulega saman frá árinu 2012 þannig að ráðherra ekki aðeins getur, heldur ber, að skerast í leikinn án tafar. Þannig getur ráðherra tryggt betri dreifingu fiskveiða yfir fiskveiðiárið en annars verður. Varla er það í þágu samkeppni og fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi að hygla örfáum risum í greininni á kostnað sjálfstæðra aðila sem fram til þessa hafa staðið í öndvegi vöruþróunar og sóknar inn á nýja og verðmæta útflutningsmarkaði fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Nú eru strandveiðar aðeins leyfðar fjóra daga í viku, frá mánudegi til fimmtudags. Framboð á mörkuðum á föstudögum er mjög af skornum skammti, sem aftur leiðir til þess að framleiðendur, sem reiða sig á fiskmarkaði, standa frammi fyrir hráefnisskorti til vinnslu á mánudögum. Þetta ógnar afhendingaröryggi og viðskiptasamböndum og stendur þannig í vegi fyrir því að hægt sé að hámarka heildarafrakstur af greininni.

Því skora SFÚ á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að auka þegar í stað aflaviðmið fyrir strandveiðar í ágúst og tryggja samfelldar strandveiðar fram á nýtt fiskveiðiár. Hér eru undir miklar útflutningstekjur þjóðarbúsins og afkoma fjölda smærri fyrirtækja í útgerð og vinnslu.“

Deila: