Gríðarlegt umfang sem verið er að leyfa
Tillögur starfshóps sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi hafa ekki breytt skoðun Landssambands veiðifélaga um að sjókvíaeldi á frjóum fiski sé varhugavert. „Hins vegar lítum við á það jákvæðum augum að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verður forsenda fyrir leyfisveitingum,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga í samtali á fréttasíðunni bb.is.
Hann vill ekki ganga svo langt að segja að tillögur starfshópsins verði grundvöllur sáttar milli fylkinga sem hafa deilt hart síðustu ár. „En við höfum ekki neinn áhuga á að troða illsakir við fólk í öðrum atvinnugreinum. Stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að leyfa sjókvíaeldi á frjóum norsku laxi. Það er gríðarlega mikið umfang sem er verið að leyfa og áhættumatið gerir ráð fyrir að það verði eldisfiskur í hverri einustu á.“
Hann bendir á að það eru fleiri áhættuþættir en erfðablöndun sem veiðifélögin hafa áhyggjur af. „Þættir eins og sjúkdómar og lús sem ekkert er tekið á í þessu áhættumati.“
Jón Helgi furðar sig á umræðu um laxastofna í ánum fjórum sem víglínan hefur verið dregin frá því að áhættumat Hafró var gefið út. Það eru Djúparnar þrjár; Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá og svo Breiðdalsá austur á fjörðum. Því hefur verið haldið fram að árnar séu uppræktaðar og vísað í áratuga gamlar fréttir og skýrslur sem segja þær hafa verið fisklausar. „Það er enginn vafi í mínum huga að það var fiskur í þessum ám áður en land byggðist. Það er gangur náttúrunnar að stofnar á jaðarsvæðum minnka þegar umhverfisaðstæður breytast og það er enn frekari ástæða til að vernda þá. Það eru ekki bara stofnar í stóru ánum sem skipta máli upp á erfðafræðilegan fjölbreytileika, litlu stofnarnir á jaðrinum geta allt eins verið mikilvægari,“ segir Jón Helgi.