Mikið eftir af humarkvótanum

Deila:

Humarveiðar hafa ekki gengið vel í ár og er mikið eftir af kvótanum, en veiðiheimildir eru miðaðar við slitinn humar. Aflinn til þessa er orðinn 343 tonn af hölum, en leyfilegur afli er 489 tonn. Því standa eftir óveidd 146 tonn, þegar vika er eftir af fiskveiðiárinu, sem hefst fyrsta september.

Ljóst er því að miklir flutningar heimilda yfir á næsta ár eru framundan. Á þessu fiskveiðiári ári voru 89,2 tonn flutt yfir frá árinu áður.

Aðeins tíu bátar hafa landað humri á þessu ári samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. 16 bátar höfðu heimildir til veiða eftir millifærslur milli báta og ára. Fimm bátar skera sig úr í veiðunum og eru þeir allir með meira en 50 tonn hver. Þessir bátar eru frá Hornafirði og Þorlákshöfn.

Aflahæstu bátarnir nú eru Þórir SF með 57,4 tonn, Jón á Hofi ÁR með 52,7 tonn, Þinganes ÁR með 52,5 tonn, Fróði ÁR með 52 tonn og Skinney SF 50,5 tonn.

Jón á Hofi og Fróði eru gerðir út af Ramma hf. en hinir þrír af Skinney Þinganesi. Bátarnir hafa í sumar stundað veiðar á vestursvæðinu, kringum Eldey og í Jökuldýpinu.

Skinneyjarbátarnir þrír voru í gær í höfn í Grindavík.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: