Mokveiða makríl við Keflavík

Deila:

Undanfarna daga hafa hafnarstarfsmenn í Keflavíkurhöfn vart haft undan að landa makríl úr smábátum.  Algengt er að menn landi fullfermi nokkrum sinnum yfir daginn. Að sögn sjómanna á bátunum heldur makríllinn sig nálægt landi við norðanverðan Reykjanesskaga, mest útaf Keflavík.

„Úti fyrir Snæfellsnesi er einnig góð veiði.  Þar er hegðun makrílsins svipuð, hann heldur sig nálægt landi.  Besta veiðin þar hefur verið við frá Rifi af Öndverðarnesi. Þriðja veiðisvæði smábáta er í Steingrímsfirði, en þar hefur veiði enn verið með tregara móti,“ segir um veiðina á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Minni veiði en í fyrra

Alls hafa 43 smábátar hafið veiðar og er aflinn að nálgast 2.300 tonn. Á sama tíma í fyrra var hann hins vegar 4.190 tonn af 40 bátum.  Þá var helmingur þeirra kominn með yfir 100 tonn en nú aðeins 6 bátar sem náð hafa þeim afla.

Af þessu má sjá að makríllinn hefur það sem af er verið í minna mæli á veiðislóðum smábáta en í fyrra.  Flestir sem rætt var við sögðu það ekkert segja til um endanlega veiði, heldur að makríllinn hefði tafist á leiðinni til þeirra.  Bjartsýni virðist því ríkja um góða vertíð.

Heildarmakrílaflinn nú er einnig minni en í fyrra.  Samkvæmt tölum á vef Fiskistofu var staðan að morgni gær dagsins 64 þúsund tonn en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 77 þúsund tonn.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

 

Deila: