Ísfiskur kaupir fiskvinnsluhús HB Granda á Akranesi
HB Grandi hf. hefur selt Ísfiski hf. bolfiskvinnsluhús sitt að Bárugötu 8-10 á Akranesi. Ísfiskur hefur rekið fiskvinnslu frá stofnun félagsins árið 1980. Undanfarin ár hefur Ísfiskur verið með um 40 starfsmenn og unnið úr um 4.000 tonnum af ýsu og þorski sem fyrirtækið hefur keypt á markaði. Starfsemi fyrirtækisins hefur alla tíð verið í Kópavogi.
Söluverð hússins og hluta af vinnslulínu er 3.250.000 USD (340 milljónir ÍKR). Ísfiskur mun hefja vinnslu á Akranesi í byrjun næsta árs.
Síðasti vinnsludagur í húsinu á vegum HB Granda var í gær og í dag mun hluti starfsmanna hefja vinnu í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar forstjóra HB Granda mun mikið hagræði hljótast af því að renna bolfiskvinnslunni saman úr tveimur húsum í eitt.
Mikill léttir
„Við höfum stefnt að því að fá aðila til að bæði nýta húsið og fjölga atvinnutækifærum á Akranesi frá því að við tókum ákvörðun um að sameina bolfiskvinnsluna á Akranesi við vinnslu okkar í Reykjavík,“ segir Vilhjálmur. „Það er okkur mikill léttir að vita af því að húsnæðið verður áfram nýtt til vinnslu á fiski og að það skuli vera jafn traust og gott félag og Ísfiskur sem á í hlut.“
Norðanfiskur, sem er að fullu í eigu HB Granda, mun leigja eina hæð í húsinu af Ísfiski undir hluta af sinni starfsemi til a.m.k. næstu þriggja ára. Auk þess mun HB Grandi leigja stóran hluta af frystigeymslu sem er í húsinu til sama tíma.
Fyrirtækið Ísfiskur var stofnað árið 1980 á Kársnesinu í Kópavogi og hefur verið starfrækt þar allar götur síðan. Ísfiskur hefur frá upphafi keypt nær allt sitt hráefni á fiskmörkuðum. Meginframleiðsla afurða hefur farið á Bandaríkjamarkað. Lengi framan af var ýsa stærsta framleiðsluvaran en undanfarin ár hefur þorskurinn sótt talsvert á.
Að sögn Alberts Svavarssonar, framkvæmdastjóra Ísfisks hefur fyrirtækið verið lánsamt að hafa gott og traust starfsfólk og er starfsaldur að meðaltali mjög hár. Stöðugildin eru nú í kringum 40 og hafa verið í langan tíma.
Mikið gæfuspor
„Nú og í nánustu framtíð stendur yfir mikil uppbygging íbúðabyggðar á Kársnesinu og ljóst að huga þurfti að nýrri staðsetningu fyrir fyrirtækið. Því var farið á fullt í að reyna að finna Ísfiski húsnæði til áframhaldandi reksturs. Sá samningur sem Ísfiskur skrifar undir við HB Granda er mikið gæfuspor fyrir fyrirtækið. Við lítum björtum augum til framtíðar og þeirra möguleika sem samningurinn við HB Granda býður upp á. Við hlökkum mikið til flutningsins og samstarfsins við HB Granda og Skagamenn,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks.
Ennfremur segir Albert að nú skapist góð tækifæri á Akranesi til að Ísfiskur vaxi og dafni og geti aukið framleiðslu sína og haldið hlutdeild sinni sem byggð hefur verið upp í Bandaríkjunum ásamt því að byggja upp þann markað í Kína sem Ísfiskur hefur verið að vinna að á undanförnum misserum. Gangi það eftir mun fyrirtækið vaxa og dafna og störfum fjölga.
Á myndinni undirrita þeir Albert Svavarsson og Vilhjálmur Vilhjámsson viðskiptin.