330 bátar yfir hámarkið í ágúst

Deila:

Á strandveiðum í ágúst fóru alls 330 bátar fram yfir 650 kg hámarkið í slægðum afla sem landa má í einni veiðiferð. Alls stunduðu 520 bátar strandveiðar á þessum svæðum í mánuðinum og því lentu um 63,4% þeirra í einhverjum umframafla samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.

Ef horft er til hvers svæðis fyrir sig þá stunduðu 204 bátar veiðar á svæði A í ágúst mánuði og lentu 68% í umframafla. Á svæði B stunduðu 123 bátar strandveiðar og 81 eða 66% fóru í umframafla. Hæst var hlutfallið á svæði C en þá stunduðu 122 bátar veiðar og 88 fóru í umframafla eða 72%. Fæstir voru bátarnar á veiðum á svæði D og aðeins 23 fóru í umframafla.

Sá bátur sem veiddi mestan umframafla á þessum svæðum var Víðir ÞH-210 með 498 kg en hann er gerður út á svæði B. Næstur kom Katrín II SH-475  með 480 kg. Í töflunni hér að neðan má sjá þá tíu báta sem fóru mest framúr á hverju svæði fyrir sig í ágúst mánuði.

Fiskistofa umframafli á strandveiðum í ágúst 2017

Fiskistofa fjöldi báta í umframafla ágúst 2017

„Fiskistofa minnir á að andvirði alls umframafla á strandveiðum verður innheimt af útgerðunum og rennur til ríkisins í Verkefnasjóð sjávarútvegs. Umframaflinn dregst eftir sem áður frá leyfilegum heildarafla á strandveiðunum svo að minna verður til skiptanna. Það er því hagur allra strandveiði-manna að veiða ekki umfram heimildir. Alls nam umframafli strandveiðibáta á þessum svæðum í ágúst tæpum 26 tonnum,“ segir á heimasíðu Fiskistofu.

Deila: