Byrjaði 11 ára á trillu

Deila:

Indriði H. Ívarsson, sölumaður sjávarafurða hjá Brimi hf. er maður vikunnar á kvótanum nú. Hann byrjaði barnungur á sjó en útskrifaðist 25 ára sem fisktæknir og hefur lengst af síðan unnið við sölu sjávarafurða. Hann er áhugamaður um skotveiði og fiskveiðar.

Nafn:

Indriði Hermann Ívarsson,

Hvaðan ertu?

frá Hofsós í Skagafirði. Fluttist til Reykjavíkur 8 ára gamall.

Fjölskylduhagir:

Giftur Kristjönu Steinþórsdóttur, leikskólakennara frá Skagaströnd. Eigum saman fjögur börn, tvo drengi og tvær stúlkur.

Hvar starfar þú núna?

Núverandi starf er sölumaður sjávarafurða hjá BRIM h/f.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði til sjós frá Hofsósi 11 ára gamall á trillu með Hermanni Ragnarssyni frænda mínum fram að fermingu. Lá meðal annars við Drangey í viku við fugla og eggjatöku og þá var svartfuglinn veiddur á fleka. Eftir það stundaði ég dragnótaveiðar á bátum frá Reykjavík ásamt því að taka þátt í hörpudisk ævintýrinu, þegar það byrjaði í Stykkishólmi. Sautján ára fór ég í útgerð með Kjartani bróður mínum á 12 tonna Bátalónsbáti sem við keyptum frá Grímsey og gerðum út frá Reykjavík á dragnót og handfæri. Þann bát áttum við í þrjú ár. Um tvítugt hóf ég nám í Fiskvinnsluskólanum og lauk þaðan prófi sem fisktæknir  25 ára gamall.

Ég hóf störf hjá Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna árið sem ég útskrifaðist. Þar starfaði ég í 17 ár við eftirlits- og þróunarstörf ásamt sölumálum síðustu fimm árin.

Árið 1991 hóf ég störf hjá útgerðafélaginu Ögurvík h/f og starfaði þar við uppbyggingu markaðs- og sölumála til ársins 2016 en hóf þá störf hjá útgerðafélaginu BRIM h/f.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það ánægjulegasta er að kynnast og starfa með því frábæra fólki sem kosið hefur íslenskan sjávarútveg sem aðalatvinnu.

En það erfiðasta:

Á meðan ég sótti sjóinn voru veðrin erfiðust.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er mjög eftirminnilegt eitt sinn þegar ég var að semja við japanskan kaupenda um sölu af karfa á skrifstofunni. Ég hafði áður boðið honum út að borða í hádeginu og hann fengið sér vel af mat og drykk og var orðinn pöddufullur þegar að samningunum kom. Gat ekki gengið einn og óstuddur og varla viðræðuhæfur. Ég nefndi bara verðin sem ég ég vildi fá og hann sagði bara; Yes, thank you very much og datt fram á borðið.

Hver er eftirminnilegasti vinnufélaginn?

Ég hef verið svo lánsamar að vinna með svo mörgu frábæru fólki að ekki verður gert þar upp á milli.

Hver eru áhugamál þín?

Helstu áhugamál mín eru skotveiðar og fiskveiðar.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ég er mikill áhugamaður um mat og hef gaman af að elda mat. Ég geri töluvert af því að elda þá aðallega heima fyrir fjölskylduna en þó einstaka sinnum fyrir vini við sérstök tilefni. En uppáhaldið er einfaldlega fiskur.

Hvert færir þú í draumafríið?

Draumafríið yrði á einhverjum fallegum stað með öllum þeim sem mér þykir vænt um.

 

 

 

 

 

 

 

Deila: