Skýrsla starfshópsins ánægjuleg fyrir sunnanverða Vestfirði

Deila:

Atvinnu- og menningarráð Vesturbyggðar lýsir ánægju sinni með niðurstöðu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi, hvað varðar sunnanverða Vestfirði, en ráðið telur eðlilegt að þau sveitarfélög sem hafa beina hagsmuni af uppbyggingu fiskeldis hefðu átt fulltrúa í starfshópnum til að tryggja sanngjarna og bráðnauðsynlega umfjöllun um byggðamál. Þetta kemur fram í bókun ráðsins.

Jafnframt fagnar ráðið niðurstöðu starfshópsins sem leggur til að 85% af auðlindagjaldi sem lagt verður á greinina renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis.

Samhliða vinnu starfshóps sjávarútvegsráðherra vann Byggðastofnun skýrslu um byggðaleg áhrif fiskeldis og atvinnu- og menningarráð Vesturbyggðar fagnar skýrslunnar en telur þó að betur hefði mátt vanda til verka og auðveldlega hefði verið hægt að koma með betri greiningu á stöðunni.

Athugasemd er gerð við það að ekki var leitað eftir aðkomu sveitarfélagsins að neinu leyti við gerð skýrslunnar og ekki var óskað eftir því að skýrslan væri lesin yfir þrátt fyrir að ítrekað væri vísað í svör sveitarfélagsins við spurningum starfshóps ráðuneytisins um mótun stefnu í fiskeldi.

Frétt og mynd af bb.is

 

Deila: