Ýmislegt að læra um laxeldi af Færeyingum

Deila:

Færeyingar framleiða nú árlega um 80 þúsund tonn af laxi og stendur laxeldisframleiðslan undir um helmingi útflutningssverðmæta Færeyja. Almennur stuðningur er í Færeyjum við atvinnugreinina, jafnt hjá almenningi og stjórnvöldum.

Þetta kom fram á fundi um fiskeldismál sem Sendistofa Færeyja á Íslandi og Landssambands fiskeldisstöðva efndi til á Hallveigarstöðum í Reykjavík nú í vikunni. Á fundinum ræddi Atli Gregersen forstjóri færeyska fiskeldisfyrirtækisins Hiddenfjord fyrirlestur undir heitinu: Hvað geta Íslendingar lært af Færeyingum. Á heimasíðu LF er sagt frá fundinum með eftirfarandi hætti:

Petur Petersen sendiherra Færeyinga á Íslandi og Einar Kristinn Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva buðu gesti velkomna og gerðu grein fyrir fundinum.
Kröftug ræða ráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hélt kröftuga og fróðlega setningarræðu og ræddi fiskeldismálin og þá framtíðarsýn sem hún hafði á hlutverki og starfsumhverfi greinarinnar í framtíðinni.

„Hvað geta Íslendingar lært af Færeyingum“?

Þá tók tók til máls Atli Gregersen forstjóri færeyska fiskeldisfyrirtækisins Hiddenfjord og nefndi erindi sitt, Hvað geta Íslendingar lært af Færeyingum? Atli kom víða við í máli sínu. Hann sagði frá reynslu Færeyinga af fiskeldi. Færeyingar framleiða nú árlega um 80 þúsund tonn af laxi og stendur laxeldisframleiðslan undir um helmingi útflutningssverðmæta Færeyja. Almennur stuðningur er í Færeyjum við atvinnugreinina, jafnt hjá almenningi og stjórnvöldum. Í ræðu sinni miðlaði hann af áratuga reynslu sinni sem stjórnandi í laxeldisfyrirtæki í Færeyjum. Þess má geta að Atli Gregersen lærði sjávarútvegsfræði í Háskólanum í Tromsö í Noregi og var skólabróðir ýmissa íslenskra stjórnenda í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.
Laxeldi gæti orðið álíka stórt og þorskveiðar og vinnsla
Einar Kristinn Guðfinnsson stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva ræddi um stöðu fiskeldisins á Íslandi og deildi með fundarmönnum sýn sinni á fiskeldi hér á landi til framtíðar litið. Það er ljóst að fiskeldið er farið að skipta máli á Íslandi og ekki síst í þeim byggðum austan lands og vestan þar sem það hefur byggst upp. Einar nefndi að ekki væri fráleitt að ætla að útflutningsverðmæti laxeldis gæti í framtíðinni orðið nálægt því sem þorskveiðar okkar skapa í dag.

Pallborðsumræður
Að loknum ræðunum sátu þeir Atli og Einar auk Sigurðar Guðjónssonar forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir svörum í pallborði. Umræðunum stjórnaði Kristján Þ. Davíðsson framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva.
Leiðir Íslendinga og Færeyinga munu liggja saman í vaxandi mæli
Þegar ráðstefnunni lauk tók við kynning Færeyinga á framleiðsluvörum sínum og eldislausnum. Mikill áhugi var meðal íslenskra fiskeldismanna á þessum þætti og ekki ólíklegt að leiðir íslenskra fiskeldismanna og frænda vorra Færeyinga eigi eftir að liggja saman á þessu sviði á komandi árum, samhliða því að fiskeldi hér á landi vex.

 

Deila: