Baldur staðsetti skipsflak í Breiðafirði

Deila:

Í sumarbyrjun var sjómælingabáturinn Baldur við mælingar á svæði sunnan Brjánslækjar vegna fyrirhugaðrar útgáfu nýrra sjókorta af Breiðafirði. Verið var að endurmæla svæðið með nákvæmum hætti með fjölgeislamæli, en eldri mælingar voru eingeislamælingar frá fjórða áratug síðustu aldar. Þekkt var að á þessum slóðum hafði norska flutningaskipið Nordpolen strandað og sokkið á í lok júlí 1926. Mannbjörg varð samkvæmt heimildum. Skipið var að sögn lestað sementi og símastaurum auk símavírs úr kopar. Frá þessu er sagt á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.

Í sjókorti nr. 42 af Breiðafirði má sjá hvar flakið er merkt inn við svokallað Álftafellsgrunn en Landhelgisgæslan hafði ekki upplýsingar um nákvæma staðsetningu þess, enda teljast gömlu mælingarnar sem eru í kortinu ekki mjög nákvæmar ef miðað er við nútíma kröfur og tækni.

Þegar Baldur mældi með fjölgeislamælinum við fyrrnefnt grunn í lok maí kom inn ílöng þúst á tólf metra dýpi, sem mögulega gat verið flak. Lengd þessarar þústar reyndist vera um áttatíu metrar.

Á fjöruliggjanda daginn eftir var ákveðið að slaka GoPro myndavélum niður að þústinni til að sannreyna hvað þarna væri. Var útfallsstraumurinn látinn bera Baldur yfir þústina og náðust þannig myndir sem staðfestu að um flak væri að ræða þótt ekki væri hægt að ráða af þeim að það væri af Nordpolen.

„Kafarar úr sprengjueyðingar- og séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar komu á vettvang næsta dag og köfuðu niður að flakinu til að kanna það betur og staðfesta að um Nordpolen væri að ræða. Nutu þeir aðstoðar kafara úr varðskipinu Þór sem var við eftirlit á svæðinu. Svo skemmtilega vildi til að dagskrárgerðarmenn frá Stöð 2 voru um borð í Þór og fylgdust þeir spenntir með þessum óvænta leiðangri í flakið. Sagt var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 síðastliðinn sunnudag og því gerð ítarleg skil í þáttunum Landhelgisgæslan sama kvöld. Minjastofnun hefur verið tilkynnt um málið,“ segir meðal annars á heimasíðu Gæslunnar.

Á myndinni að ofan má sjá hvernig flakið teiknast upp í þrívídd í úrvinnsluforritum sjómælingasviðs eftir að unnið hefur verið úr sjómælingagögnum Baldurs.

 

Deila: