Makrílveiðum lokið hjá Síldarvinnslunni

Deila:

Makrílveiðum er lokið hjá Síldarvinnslu-skipunum. Þeim lauk með tilraunum Barkar NK og Bjarna Ólafssonar AK til að veiða makríl í nót í Smugunni. Síðustu daga hafa skipin reynt nótaveiðarnar með hverfandi árangri. Börkur kom fyrr í mánuðinum með 630 tonn af makríl sem veiddist í nót og því þótti sjálfsagt að gera frekari tilraunir til nótaveiði enda nótaveiddur makríll álitinn betra hráefni en makríll veiddur í troll.

Eftir nokkrar nánast árangurslausar tilraunir til að kasta á makríl hafa bæði skipin nú snúið sér að síldveiði og kom Börkur til Neskaupstaðar um hádegisbil á föstudag með 740 tonn og Bjarni Ólafsson er að hefja veiðar í Norðfjarðardýpi. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að lítið hefði verið að sjá af makríl í Smugunni sem unnt hefði verið að kasta nót á með einhverjum árangri.

„Við leituðum í þrjá daga að einingum sem gætu gefið eitthvað í nótina en það var býsna lítið að sjá. Við köstuðum þrisvar, búmmuðum algjörlega tvisvar en fengum 40 tonn í einu kastinu. Síðan versnaði veðrið og þá fórum við að huga að síld sem við tókum í troll. Við stoppuðum í 12 tíma og tókum síldaraflann í þremur holum. Það er ennþá makríll á þessum miðum þó svo að erfitt sé að ná honum í nót. Það voru til dæmis bátar að fá ágætt í trollið í gærmorgun og fram eftir degi en þá brældi og nú er leiðindaveður þarna.

Þegar við komum á miðin í Smugunni voru norskir bátar að fiska makríl í nót inni í norskri lögsögu en svo datt þetta niður hjá þeim og þeir voru mikið að leita. Líklega er kominn sá tími að erfitt er að finna makríl sem er veiðanlegur í nót auk þess sem fiskurinn er erfiður viðureignar – hann fer hratt yfir. Síðan eru veður tekin að versna á þessum árstíma og eins er langt að fara í Smuguna þannig að líklega munu menn ekki reyna frekar með nótinni að sinni,“ sagði Hjörvar.

Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni tók undir með Hjörvari og sagði að líklega þyrfti að hefja veiðar á makríl í nót fyrr. „Það var ekkert að hafa í nótina úti í Smugu þessa daga. Við köstuðum þrisvar og búmmuðum alltaf. Fiskurinn er ekki í torfum í ríkum mæli þegar komið er fram á þennan tíma auk þess sem hann er snælduvitlaus – æðir út um allan sjó og fer út og suður. Það er líka erfitt að eiga við þetta með nót þegar hausta tekur og veður versna. Niðurstaðan varð sú að við höfum snúið okkur að síldinni og vorum rétt í þessu að kasta trollinu í Norðfjarðardýpinu,“ sagði Runólfur.

 

Deila: