SVN á tæknidegi fjölskyldunnar

Deila:

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í fimmta sinn nk. laugardag. Auk Verkmenntaskólans stendur Austurbrú fyrir deginum og hefur lengi verið unnið að undirbúningi hans. Dagskráin hefst kl 12.00 og lýkur kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis.

„Síldarvinnslan mun að sjálfsögðu taka fullan þátt í tæknideginum eins og áður. Mun starfsemi fyrirtækisins verða kynnt með ýmsu móti og eins verður gestum boðið að gæða sér á ýmsum framleiðsluvörum. Hjá Síldarvinnslunni er tæknidagurinn tilhlökkunarefni og þannig er það hjá öllum þeim sem hafa kynnst honum. Dagurinn hefur verið afar fjölsóttur og má gera ráð fyrir að margir leggi leið sína í Verkmenntaskólann nk. Laugardag,“ segir á vefsíðu Síldarvinnslunnar.

Eins og áður er dagskrá tæknidagsins afar fjölbreytt og má segja að kappkostað sé að höfða til allra aldurshópa. Fjöldi fyrirtækja og stofnana munu kynna starfsemi sína og munu gestir geta aflað sér margþættra upplýsinga um tækninýjungar. Þá verður fjölbreytt námsframboð Verkmenntaskólans kynnt og munu gestir geta séð þann kennslubúnað sem skólinn ræður yfir. Sem dæmi um það sem boðið verður upp á á tæknideginum má nefna að Háskólinn á Akureyri mun kynna sýndarveruleika, Matís mun fræða um fílatannkrem, Slökkvilið Fjarðabyggðar mun bjóða upp á reykköfun, últrahlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson mun fræða um hlaup í 3000 metra hæð, Fab Lab – smiðjan verður kynnt o.fl. o.fl. Dagskráin er vægast sagt fjölskrúðug og forvitnileg.

 

 

Deila: