Jarðskjálftamælir í Bjarnarey að frumkvæði VSV

Deila:

Veðurstofa Íslands hefur komið fyrir jarðskjálftamæli í Bjarnarey og þar með er unnt að staðsetja jarðhræringar undir Vestmannaeyjum með meiri nákvæmni en áður. Vinnslustöðin borgaði tækin og kostnað við uppsetningu. Veiðifélag Bjarnareyinga og Björgunarfélag Vestmannaeyja lögðu verkefninu sömuleiðis lið.

Upphafið má rekja til málstofu stjórnenda Vinnslustöðvarinnar í febrúar 2017 þar sem Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur og Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingur á Jarðvísindastofnun kynntu flóðahættu í Eyjum og fleiri mögulegar afleiðingar eldgoss í Kötlu.

Eftirlit með jarðvá í Vestmannaeyjum bar þá líka á góma. Fram kom að einn jarðskjálftamælir væri á Heimaey en fleiri slíka þyrfti til að staðsetja jarðhræringar þar af meiri nákvæmni sem augljóslega skiptir miklu máli þegar horft er til almannavarna og viðbragðstíma ef hætta þykir á að óróinn kunni að boða eldsumbrot, segir Ármann Höskuldsson.

„Vinnslustöðin tók þarna af skarið og ákvað að greiða kostnað við að bæta við jarðskjálftamæli. Það er fagnaðarefni.

Með nýjum mæli í Bjarnarey getum við staðsett jarðhræringar nákvæmar en áður og enn frekar ef bætt væri við þriðja mælinum, til dæmis í Surtsey, Álsey eða jafnvel á hafsbotni. Augljóslega skiptir á allan hátt miklu máli að vita nákvæmlega hvort hræringar mælast í jarðskorpunni undir einhverjum skerjum eða úteyjum eða sjálfri Heimaey.

Það skal tekið fram að ekkert sérstakt er að gerast undir Vestmannaeyjaklasanum núna sem kallar á aukið eftirlit en þarna er virkt sprungukerfi sem oft hefur gosið á undanfarin tíu þúsund ár. Eyjarnar og skerin eru til vitnis um það og við höfum verið minnt rækilega á þessa staðreynd á undanförum fáeinum áratugum með Surtseyjargosinu 1963 og á Heimaey 1973.“

Í þágu öryggis íbúanna og byggðarlagsins

„Þegar við heyrðum af því að jarðskjálftamæla vantaði í Vestmannaeyjum, og að vísindamenn yrðu oftar en ekki að reiða sig á sjálfsaflafé til að fylla í slíkar eyður, var ákveðið að fyrirtækið borgaði nýjan mæli og uppsetningu tæknibúnaðar í Bjarnarey, alls um 2,2 milljónir króna.

Við viljum einfaldlega stuðla að meira öryggi byggðarinnar, það er í þágu byggðarlagsins, fyrirtækisins, allra sem í því starfa og fjölskyldna þeirra. Ég er þakklátur Veiðifélagi Bjarnareyinga og Björgunarfélagi Vestmannaeyja fyrir þeirra hlut,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV.

Dagsverk að koma mælinum fyrir

Stjórn Veiðifélags Bjarneyjareyinga tók strax vel í erindið þegar leitað var eftir heimild til að setja nýja jarðskjálftamælinn niður í Bjarnarey. Að morgni þriðjudags 26. september ferjaði þyrla Landhelgisgæslunnar tæki og mannskap frá flugvellinum í Eyjum út í Bjarnarey. Þangað fóru Sighvatur K. Pálsson og Þorgils Ingvarsson, sérfræðingar í mælarekstri Veðurstofunnar, og Haraldur Geir Hlöðversson – Halli Geir, formaður Veiðifélags Bjarnareyinga.

Grafin var hola skammt frá veiðihúsinu í eynni, steypt undirlag fyrir mælinn á móbergsklöpp og lagður jarðstrengur að húsinu þar sem komið var fyrir sólarsellu, rafgeymum og búnaði til 3G farsímatengingar. Á myndinni til vinstri plægja Þorgils og Halli Geir niður jarðstreng að mælitunnunni (mynd: Sighvatur).

„Við vorum að verki alveg fram í myrkur og þá kom Gunni Ella P (Gunnlaugur Erlendsson) á báti Björgunarfélags Vestmannaeyja til að ná í okkur. Við náðum að koma öllum búnaði fyrir en ég þarf að bregða mér út í ey til að ljúka smáræði sem út af stendur og þá verður hægt að taka mælinn í gagnið,“

segir Halli Geir.

Bjarnarey er mjög hálend og þverhníptir hamraveggir umlykja hana að miklu leyti. Hæsti punkturinn er um 160 metrum yfir sjávarmáli og veiðihúsið er sunnan undir Bunka, fjallhnúknum á eynni.

Jarðskjálftamælir færður til á Heimaey

„Veðurstofan rekur alls um 70 jarðskjálftamæla á landinu öllu, þar af einn ofan við gömlu malbikunarstöðina á Heimaey. Sú staðsetning er ekki heppileg. Við höfum sannreynt að hafnarframkvæmdir og fleira trufla mælingar og erum því að prófa mæli á öðrum stað á Heimaey,“

segir Sighvatur K. Pálsson á Veðurstofunni.

„Jarðhræringar undir Vestmannaeyjum eru flestar á 10-12 km dýpi en mestu skiptir að unnt sé að staðsetja þær með nægilegri nákvæmni. Það var ekki unnt með einum mæli en stendur nú til bóta þegar nýi mælirinn verður tekinn í gagnið.“

 

Deila: