Veiða hörpuskel á ný

Deila:

Veiðar á hörpudiski í tilraunaskyni frá Stykkishólmi hafa staðið yfir í haust eins og á síðasta ári. Tveir bátar stunda veiðarnar og er skammturinn á hvorn bát um 6 tonn á dag. Bátarnir sem stunda veiðarnar eru Leynir SH og Hannes Andrésson SH, en skelin er unnin hjá Agustson í Stykkishólmi.

Veiðarnar og vinnslan eru samvinnuverkefni þeirra fyrirtækja sem höfðu aflamark í hörpuskel á sínum tíma, en engar veiðar voru stundaðar í rúman áratug vegna hruns í stofni hörpuskeljarinnar 2005. Ástæður hrunsins eru talin sýking í skelinni eftir að hitasig á miðunum hækkaði. Veiðarnar eru sömuleiðis í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og eru skipulagðar eftir veiðisvæðum í samráði við hana.

„Við erum bara með dagskammtinn, um 6 tonn,“ sagði Sigurður Þórarinsson, skipstjóri á Leyni, í samtali við Kvótann, þegar hann kom að landi í gær. Hann sagði veiðina misjafna eftir svæðum, enda væri skelin á þeim mismikil. Þeir eru fimm um borð og fara út um klukkan 6 að morgni og koma með skammtinn sinn upp úr miðjum degi.

IMG_7264 (2)

Ljósmyndir Hjörtur Gíslason

Deila: