Steintankurinn tekur stakkaskiptum

Deila:

Steintankurinn austan gömlu fiskvinnslustöðvarinnar í Neskaupstað hefur tekið stakkaskiptum. Til þessa hefur tankurinn kúrt á sínum stað og látið lítið fyrir sér fara en nú hefur hann verið málaður og skreyttur þannig að hann fer ekki framhjá neinum sem á leið hjá. Á meðal þess sem málað hefur verið á tankinn eru annars vegar orðin SÍLD og SÆLA og hins vegar SÚLD og BRÆLA. Sjálfsagt eru skiptar skoðanir um tankinn sem listaverk en víst er að hinn nýi svipur hans er skemmtileg tilbreyting í hversdagsleikann. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar og segir þar ennfremur.

Skreyting tanksins er eitt af þeim verkefnum sem unnið hefur verið í Neskaupstað í sumar á vegum Art Attack – verkefnisins, en listamenn hafa heimsótt bæinn á vegum verkefnisins og lífgað upp á mannlífið með fjölbreyttri list. Það voru þau Björn Loki og Elsa Jónsdóttir frá Stúdíói Kleinu sem önnuðust skreytinguna á tankinum en þau sérhæfa sig í að handmála skilti og auglýsingar upp á gamla mátann.

Í tilefni af þeim stakkaskiptum sem tankurinn hefur tekið er sjálfsagt að rifja upp nokkra þætti úr sögu hans. Tankurinn var reistur á kreppuárunum í atvinnubótavinnu en þá var brædd síld og síðar karfi í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar og þurfti nauðsynlega tank undir lýsi. Starfsemi Fóðurmjölsverksmiðjunnar lauk árið 1940 en árið 1944 festi Samvinnufélag útgerðarmanna kaup á eignum hennar, þar á meðal umræddum tanki. Lét Samvinnufélagið rífa Fóðurmjölsverksmiðjuna að mestu og reisti fiskvinnslustöð sína á þeim stað sem verksmiðjan stóð á. Árið 1943 hóf Samvinnufélag útgerðarmanna olíusölu til báta og tók steintankinn þá á leigu undir olíu. Samvinnufélagið annaðist olíusölu allt til ársins 1947 eða þar til Olíusamlag útvegsmanna var stofnað. Olíusamlagið festi kaup á steintankinum og notaði hann fyrir olíubirgðir, meðal annars var svartolía fyrir togara geymd í honum um tíma.

Síldarvinnslan hóf að nota tankinn undir lýsi þegar síldarverksmiðja fyrirtækisins tók til starfa árið 1958 og ári síðar festi hún kaup á tankinum. Að því kom að Síldarvinnslan lét reisa aðra lýsistanka og var þá steintankurinn nýttur með öðrum hætti. Dyr voru gerðar á tankinn og eftir það var komið upp hreistursvélum til að afhreistra karfa í honum. Árið 1979 var síðan komið upp búnaði í tankinum til að hreinsa loðnuhrogn og fór slík hreinsun fram þar fram undir árið 2000. Þá var söltuð síld í tankinum haustið 1980. Á seinni árum hefur tankurinn verið nýttur sem geymsla.

Steintankurinn á sér merka sögu eins og mörg önnur mannvirki sem lengi hafa verið í notkun. Hann hefur gengið undir ýmsum nöfnum og var lengi ýmist nefndur Colosseum eða hringleikahúsið. Eitt er þó víst að tankurinn hefur aldrei vakið jafn mikla athygli og einmitt núna. Hann á þá athygli fullkomlega skilið.

 

Deila: