Samkeppniseftirlitið svarar fyrirspurn

Deila:

„Af ofangreindu er ljóst að Samkeppniseftirlitið hefur haft tilefni til og lagt áherslu á að kanna nánar stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi, en ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess. Þá hefur eftirlitið um nokkra hríð hvatt stjórnvöld til að styrkja lagaumgjörð á vettvangi fiskveiðistjórnunar, í samkeppnislegu tilliti.” Þetta er á meðal þessa sem fram kemur á vef Samkeppniseftirlitsins þar sem stofnunin svarar fyrirspurn Morgunblaðsins um tilurð rannsóknar stofnunarinnar á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi og samning við matvælaráðuneytið um skýrslu þess efnis.

Eftirlitið segir að í þágu opinberrar umræðu sé svarið birt á vefnum.

Fram kemur að á fyrri hluta árs 2022 hafi matvælaráðuneytið snúið sér til Samkeppniseftirlitsins til þess að afla upplýsinga og sjónarmiða sem nýst gætu við undirbúning stefnumótunarvinnu í sjávarútvegsmálum, sem síðar hófst undir heitinu „Auðlindin okkar“. Í því samtali hafi ráðuneytið einkum leitað upplýsinga um yfirsýn Samkeppniseftirlitsins yfir stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi, en fram hafi komið að yfirsýn yfir þetta hefði mikla þýðingu við mótun stefnu og löggjafar í sjávarútvegsmálum.

„Af þessu tilefni greindi Samkeppniseftirlitið frá framangreindri forsögu, þ.e. að stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi hefðu komið til skoðunar og að eftirlitið teldi nauðsynlegt (sbr. áherslur stjórnar) að efla yfirsýn sína yfir stjórnunar- og eignatengsl á þessu sviði. Jafnframt væri hafið samtal milli eftirlitsstofnana, að frumkvæði Samkeppniseftirlitsins, sem miðaði að því að efla þessa yfirsýn og auka skilvirkni í eftirliti. Fiskistofa, sem tilheyrir matvælaráðuneytinu, væri aðili að því samtali.

Í samræmi við ábyrgð sína á þessum málaflokki, sem og til undirbúnings framangreindri stefnumótun, tók matvælaráðuneytið þessi mál til nánari skoðunar. Til að greiða fyrir þessari umræðu tók Samkeppniseftirlitið að sér að skrifa minnisblað um greiningu á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja, Voru drög að því minnisblaði send ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins þann 2. maí 2022. Fullgerði ráðuneytið síðan minnisblaðið og nýtti það í umræðu á sínum vettvangi.”

Svarið má í heild sjá hér.

Deila: