Tækifæri og ógnanir á Norðurslóðum

Deila:

Tækifæri fyrir samfélög og ógnanir við lífshætti á Norðurslóðum eru til umræðu á Hingborði Norðursins í ár sem fyrri ár. Í tengslum við ráðstefnuna eru margir áhugaverðir viðburðir, þar á meðal er einn sem snýr að frumkvöðlum, nýsköpun og hagrænni þróun

Í tengslum við Hringborð Norðursins (e. Arctic Circle) stendur Norræna ráðherranefndin og Viðskiptaráð Norðurslóða (e. Arctic Economy Council) fyrir hliðarviðburði (e. Break-Out Session) um hagræna þróun, nýsköpun og frumkvöðla á Norðurslóðum. Hliðarviðburðurinn fer fram í Kaldalóni í Hörpu á morgun, föstudaginn 13. október milli klukkan 16:15 og 17:45.

Fjallað verður m.a. um þátt norrænnar samvinnu í breytingum innan hagkerfa Norðurslóða, greiningu viðskipta á Norðurslóðum og viðhorf innfæddra til viðskiptaþróunar á Norðurslóðum. Þá mun Róbert Guðfinnsson hjá Genís tala um hvað þurfi til að knýja nýsköpun og frumkvöðla starf á Norðurslóðum, Stephen Hart, hjá Evrópska fjárfestinga bankanum, mun kynna fjármögnun viðskiptaþróunar og fjárfestinga á Norræna hluta Norðurslóða m.t.t. tækifæra, þarfa og krafa, Thomas Westergaard hjá Hurtigruten, mun segja frá þætti norrænar matargerðar sem samkeppnisforskot í ferðaþjónustu á Norðurslóðum og Sveinn Margeirsson hjá Matís mun ræða hlutverk lífhagkerfis til að stuðla að sjálfbærum vexti á Norðurslóðum.

Að lokum mun formaður Viðskiptaráðs Norðurslóða Tero Vauraste fjalla um hvernig hægt sé að hreyfa við áætlun um viðskiptaþróun á Norðurslóðum fram á við.

Þessu tengt má geta þess að Matís er þátttakandi í ClimeFish verkefninu sem miðar að því að styðja við sjálfbæran sjávarútveg, virkja aukningu í framleiðslu innan evrópsks fiskeldis, auðvelda atvinnu- og svæðisþróun innan atvinnugreinanna, og þróa spálíkön og tól til ákvarðanatöku til að bregðast megi við loftslagsbreytingum í samstarfi við hagaðila.

 

Deila: