Viðurkenningar veittar vegna skútubjörgunar

Deila:

Charles D. Michel, aðmíráll og næstæðsti yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, sæmdi í gærmorgun skipverja á Árna Friðrikssyni, rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, áhöfn flugvélar Isavia, TF-FMS, og starfsmenn í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar viðurkenningu fyrir þátt þeirra í að bjarga áhöfn bandarísku skútunnar Valiant í sumar. Athöfnin fór fram um borð í varðskipinu Þór. Aðmírállinn er staddur hér á landi í tengslum við Arctic Circle-ráðstefnuna í Hörpu.

Ingvi Friðriksson skipstjóri á Árni Friðrikssyni, var sæmdur sérstakri viðurkenningu fyrir hugdirfsku (e. Certificate of Valor) en áhöfn skipsins fékk viðurkenningu fyrir störf í almannaþágu (e. Certificate of Public Service). Flugstjóri og flugmaður TF-FMS og varðstjórar og stjórnandi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar voru einnig sæmdir viðurkenningu fyrir störf í almannaþágu.

Bandaríska skútan Valiant lenti í alvarlegum sjávarháska aðfaranótt 26. júlí þegar brotsjór reið yfir hana. Þrír voru um borð. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar nam boð frá neyðarsendi skútunnar djúpt suðvestur af landinu, skammt utan við mörk fiskveiðilögsögunnar. Varðstjórar og stjórnandi í stjórnstöðinni skipulögðu og stýrðu aðgerðum sem leiddu að lokum til þess að skútan fannst og áhöfninni var bjargað.

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson var í þrjátíu sjómílna fjarlægð frá staðsetningu neyðarsendisins og óskaði stjórnstöð LHG eftir því að skipið færi þegar á vettvang. Snemma um morguninn var flugvél Isavia, TF-FMS, var kölluð út til leitar og tókst flugmönnum hennar að miða út fjarskiptasendingar frá skútunni og staðsetja hana með nákvæmum hætti. Var Árna Friðrikssyni í framhaldinu beint á staðinn. Skipstjóri og áhöfn rannsóknarskipsins björguðu mönnunum þremur um borð við krefjandi aðstæður og hlúðu vel að þeim uns hægt var að koma þeim í land nokkrum dögum síðar.

Talsvert var fjallað um málið í fjölmiðlum, bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Fyrr í haust hafði embættismaður í bandaríska sendiráðinu á Íslandi samband við Landhelgisgæsluna og tilkynnti um að bandaríska strandgæslan vildi heiðra þá Íslendinga sem mestan þátt áttu í þessari giftusamlegu björgun þar sem góð samvinna og fumlaus vinnubrögð starfsfólks þessara þriggja stofnana réðu mestu um hve vel fór.
Mynd: Jón Páll Ásgeirsson

Deila: