205.000 tonna loðnukvóti í Barentshafi?

Deila:

Alþjóða hafrannsóknaráðið hefur lagt til að loðnukvóti í Barentshafi á næsta ári farið ekki yfir 205.000 tonn. Engin loðna var veidd í ár og ekki heldur á síðasta ári. Verði þetta niðurstaðan verður hlutur Norðmanna 123.000 tonn eða 60% og Rússa 40% eða 82.000 tonn.

Í leiðangri þessa hausts mældist mun meira af loðnu en í fyrra og telja fiskifræðingar óhætt að hefja veiðar á ný.

Leiðangursstjórinn Geir Huse segir að mikið hafi orðið vart við loðnu í haust. Við mat á veiðiþoli loðnustofnsins er fyrst metið hve þorskurinn taki til sín af loðnunni og ákveðið magn þurfi til hrygningar til nauðsynlegs viðhalds stofninum. Að því loknu er veiðiþolið metið.  Því má segja að hagsmunir þorsksins komi á undan hagsmunum sjómanna og útgerðarmanna.
Fiskveiðinefnd Norðmanna og Rússa ákveður endanlega hver loðnukvótinn verður. Ekki hefur verið gefinn út loðnukvóti hér við land fyrir næstu vertíð.

Deila: