Góður túr hjá Höfrungi III AK

Deila:

Frystitogarinn Höfrungur III AK kom til Reykjavíkur snemma í morgun eftir velheppnaða veiðiferð. Að sögn Arnar H. Ævarssonar skipstjóra er aflinn búinn að vera góður og hann segist hafa verið heppinn með veður en a.m.k. einar tvær hressilegar haustbrælur hafa gert mörgum sjómönnum lífið leitt undanfarnar tvær vikur.

,,Við byrjuðum túrinn á veiðum í Skerjadjúpinu þar sem við leituðum að djúpkarfa með takmörkuðum árangri. Við leituðum svo á svæðinu þar vestur af, alveg út í það sem menn kalla Myrkur, en djúpkarfaaflinn var tregur. Við fengum hins vegar gulllax á hinum og þessum stöðum og víða er nóg af gullkarfa. Síðustu tveimur sólarhringunum á suðvestursvæðinu vörðum við svo á Fjöllunum og fengum þar ágætan ufsaafla og gullkarfa með,“ segir Arnar í samtali á heimasíðu HB Granda, en hann segir ufsann hafa verið af mjög góðri vinnslustærð.

Af Fjöllunum var síðan haldið norður á Hampiðjutorg.

,,Við fengum dálítið af grálúðu og svo er nóg af gullkarfa allt frá Hampiðjutorginu og Víkurálnum norður allan kantinn að Halanum. Það var hins vegar spáð leiðindabrælu og við notuðum því 12. og 13. október sl. til að skjótast í millilöndun í Reykjavík. Við fórum svo beint á Halann eftir millilöndunina og þar fengum við góða veiði, þorsk, ufsa og gullkarfa. Þarna vorum við í eina fimm daga en þá var stefnan tekin suður á ný og síðustu tveir sólarhringarnir hafa farið í góða ufsaveiði á Fjöllunum. Mér telst til að aflinn eftir túrinn sé um 700 tonn af fiski upp úr sjó. Þetta er mjög blandaður afli og allt hefur gengið að óskum. Áhöfnin er frábær, harðduglegir og jákvæðir strákar, en það er forsendan fyrir því að ná góðum árangri,“ segir Arnar H. Ævarsson.

Brottför í næstu veiðiferð er svo fyrirhuguð í kvöld.
 

 

Deila: