„Þetta gekk ljómandi vel“

Deila:

„Þetta gekk ljómandi vel. Við fórum út á fimmtudaginn og vorum komnir í land í morgun. Þetta fór aðallega í það að reyna búnaðinn og það gekk mjög vel, eiginlega betur en maður þorði að vona. En fiskiríið var rólegt, bara 75 tonn. Við vorum byrjaðir að veiða aðfaranótt laugardagsins fyrir norðan Kolbeinsey í stórum og fallegum þorski. Það hefði mátt vera meira af honum,“ segir Kristján Salmannsson í samtali við Kvótann.

Kristján Salmannsson

„Það er ekki mikið sem þarf að laga fyrir næsta túr, smá fínisering á vinnsludekki. Við erum bara með hefðbundna ísingu á aflanum, ekki búið að setja lokabúnaðinn í skipið. Við erum með lyftara í lestinni sem hangir í hlaupaketti. Það er til mikilla bóta fyrir mannskapinn. Þá er bara ísað í körin fremst á vinnsludekkinu og svo tekur lyftarinn þetta frá þeim og raðar í lestina.

Skipið reyndist líka ákaflega vel, það var aðeins kaldi þegar við fórum og eins  í restina en annars var gott veður. Þetta er glæsilegt skip og mikil breyting fyrir okkur frá gamla skipinu, miklu stærra og meira skip í alla staði,“ segir Kristján.

Gert er ráð fyrir að fara út aftur á fimmtudag eða föstudag.

Deila: