Tillaga um veiðar smábáta í þorskanet felld

Deila:

Fyrir aðalfundi LS lágu 12 tillögur jafnmargra svæðisfélaga um afstöðu til veiða í þorskanet hjá krókaaflamarksbátum.  Níu svæðisfélög fluttu tillögur þar sem lýst var andstöðu, þrjú voru með tillögur um að heimila ætti net. Farið er yfir þetta á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda og segir þar svo:

Öllum tillögunum var vísað til allsherjarnefndar.  Að lokinni góðri og málefnalegri umræðu þar var samþykkt að vísa tillögunum til umræðu sameiginlegs fundar.  Ekki síðri umræða fór þar fram og mátti ekki á milli sjá hvernig atkvæði mundu falla.

Umræðum lauk með samkomulagi um að greidd yrðu atkvæði um eftirfarandi tillögu:

Aðalfundur LS telur að vegna erfiðleika sem steðja að útgerð krókaaflamarksbáta sé óhjákvæmilegt að auk línu og handfæra verði þeim heimilt að nota þorskanet við veiðar.

Aðalfundur LS leggur áherslu á að ekki verði hróflað við stjórnkerfi fiskveiða með sameiningu króka- og aflamarks.  Áfram verði tvö veiðikerfi, króka- og aflamark, þar sem óheimilt verði að framselja veiðiheimildir krókaaflamarksbáta til skipa á aflamarki.

Í fyrstu atkvæðagreiðslu féll tillagan á jöfnu 20 – 20.  Þá var ákveðið að endurtaka atkvæðagreiðsluna.  Þá féllu atkvæði þannig að 21 greiddi með tillögunni en 23 voru henni andvígir.  Tillagan var því felld.

Þess ber að geta að fundurinn samþykkti einróma að leggjast gegn sameiningu króka- og aflamarkskerfisins

Þátttakendur í umræðunni um netatillöguna voru fjölmargir.

Meðal þess sem fram kom hjá þeim sem mæltu með netum var:

 

 • Það á ekki að vera hlutverk okkar að takmarka athafnafrelsi félagsmanna.
 • Rekstrarskilyrði batna, þ.s. afli hefur tregast á línuna og allur tilkostnaður þar hækkað, 7 þúsund króna bali stendur ekki lengur undir sér.
 • Kostnaður minni við netaveiðar.
 • Það munu ekki allir flykkjast á net, aðeins á þeim tíma sem ekkert fæst á línuna.
 • Hverju höfum við að tapa, ef breytingin verður til að bjarga einhverjum þá er það bara gott mál.
 • Aldrei trossa eftir í sjó – aðeins verið með 3 – 4 trossur hverju sinni.
 • Stendur ekki til að sameina kerfin.
 • Netafiskur er verðminni en línufiskur að sambærilegri stærð, en á móti kemur að hann er í flestum tilvikum stærri og aflaverðmæti þess vegna síst minna.

Rök þeirra sem voru andvígir netaveiðum krókaaflamarksbáta voru ekki síður sterk:

 • Þegar hætt verður að veiða með króka, þá heitir kerfið ekki lengur krókaaflamark heldur aflamark.  Ef þetta kemur á þá er bara eitt skref eftir – aflamark.
 • 1. janúar 2018 koma til framkvæmda lög í Bandaríkjum sem loka fyrir innflutning sjávarafurða frá þjóðum sem stunda veiðar þar sem sjávarspendýr drepast sem meðafli.
 • Að sögn ráðuneytisins gæti svo farið að netaveiðar yrðu alfarið bannaðar.
 • Líklegt að leiguverð aflaheimilda hækki.
 • Áhyggjur af því að draga mun úr sérstöðu smábátaflotans við að fara á net.
 • Orðspor línufisks gríðarlega gott, hann seldur inn á alla dýrustu markaðina.
 • Verðmæti þess sem tekið er úr auðlindinni minnkar.
 • Meiri eftirspurn eftir línuveiddum fiski.

 

Ljóst er að þessari umræðu er hvergi nærri lokið og mun örugglega halda áfram meðal félagsmanna.

 

 

 

Deila: