Umhverfisvænn Týr eins og nýr
Þeir sem átt hafa leið um gömlu höfnina í Reykjavík að undanförnu hafa ugglaust veitt því athygli að varðskipið Týr hefur fengið hressilega andlitslyftingu en skipið er nýkomið úr slipp. Frá þessu er greint á heimasíðu Gæslunnar.
Það var Slippurinn á Akureyri sem sá um að fríska upp á Tý, sem er orðinn ríflega fjörutíu ára gamall. Skipið fór í slipp í ágústlok og undir lok síðasta mánaðar var hann sjósettur á ný. Óhætt er að segja að Týr hafi fengið andlitslyftingu því auk hefðbundins viðhalds var skipið sand- og vatnsblásið í bak og fyrir og síðan málað aftur í varðskipsgráa litnum sínum með fánaröndinni fögru. Elstu málningarlögin voru orðin sautján ára gömul og því má gera ráð fyrir að skipið sé orðið örlítið léttara en það var með alla þessa málningu utan á sér.
Einn mikilvægasti þáttur þessara endurbóta liggur í nýrri botnmálningu. Með tímanum safnast fyrir alls kyns gróður , hrúðurkarlar og önnur smádýr á botn skipa, þ.e. neðan sjólínu. Þetta hefur neikvæð áhrif á siglingarhæfni þeirra, dregur úr hraða og eykur eldsneytisnotkun. Til að sporna við þessu hafa skip lengstum verið máluð með málningu sem inniheldur kopar, tin eða aðra málma, auk annarra misheilnæmra efna. Hefðbundin botnmálning dugar ágætlega til að halda botninum hreinum en sá böggull fylgir skammrifi að henni fylgir mengun með neikvæðum áhrifum á lífríkið.
Silíkonbotnmálningin sem Týr er nú málaður með inniheldur 95 prósent minna af lífeyðandi efnum en hefðbundin botnmálning og með notkun hennar er þannig dregið úr losun eiturefna í hafið.
Hreinn og nýmálaður botn hefur í för með sér umtalsverðan olíusparnað sökum minna viðnáms. Talið er að olíunotkun skipsins verði allt að átta prósent minni með þessum endurbótum. Þar munar um minna því skipið eyðir um 30.000 lítrum af olíu í hverjum túr og fer 6-7 ferðir á ári. Þarna getur því munað 14.400-16.800 lítrum á ári, eða sem nemur hálfum túr. Varðskipið Týr er því eftir þessa yfirhalningu orðinn mun sparneytnari og þar með umhverfisvænni en áður.