Umfangsmikil kræklingarækt í Galicíu á Spáni
Kræklingarækt á Spáni er sú mesta af öllu fiskeldi landsins og sú mikilvægasta í Evrópu. Spánn ræktar um 300.000 tonn á ári og er því í öðru sæti í heiminum á eftir Kína sem er með 450.000 tonn á ári að meðaltali. Galícía er aðal ræktunarhéraðið eða með 95 prósent ræktunarinnar, en af öðrum svæðum má nefna Andalúciu og Katalóníu. Ræktunin í Galicíu veitir 10.000 manns fasta vinnu ár hvert.
Ræktun kræklingsins á Spáni hófst árið 1946 í Galicíu þegar settar voru í höfnina í Villagarcía de Arosa 10 flatbytnur eða flotprammar. Árið 1949 bættust við flotprammar í ánni við Vigo og 1954 bættust við ræktunaraðilar í Cambados, O Grove og fleirum stöðum. 1961 voru stofnuð samtök sem halda utan um lög og reglugerðir í kringum fiskeldið. Í dag eru 3.300 prammar í ám og ármynnum Galiciu.
Ræktunin fer fram á svokölluðum flotprömmum sem settir eru í hópum í lónin og hver þeirra með sitt númer til að hægt sé að fylgjast með lögum og reglum hvers og eins. Nú hefur fjöldi pramma í hverju lóni verið takmarkaður til að koma í veg fyrir mettun svæðisins og betri ræktun kræklingsins.
Á prammana eru svo hengd bönd sem eru yfirleitt 3 cm á þykkt og gerð úr nælon eða polister sem er þá fíngerðari en kræklingurinn festir sig betur, því grófari sem þau eru Böndin eru frá 6 til 10 metrar á lengd og duga í 4-5 ár. Hver prammi getur borið 200 – 700 bönd eða 1-3 bönd á hvern fermetra. Þannig fæst gott flæði á milli bandanna og kemur í veg fyrir að þau snerti hvert annað. Böndin eru gerð klár eða fest á frá nóvember til mars.
Ræktunin hefst þegar ræktandi nær sér í kræklingalifur og í 60-70 prósenta tilfella með því að sækja þær við klettastrandir í lágflæði. Til þess nota þeir sérstaka járnsköfu með tréskafti sem kallast „RASQUETA“ Svo festir kræklingalirfan sig einnig á þessi bönd sem hanga á prömmunum. Ræktandinn nær sér í um 4.500 tonn af lifrum í hverri lotu ræktunarinnar. Henni er haldið blautri og komið á böndin innan við 24 tíma eftir söfnun. Ýmist er það gert handvirkt eða með vélum að setja lirfurnar á böndin og pakka þeim inn í bómullar- eða gervinet. Sett eru 1,5 – 1,75 kíló af lifrum á hvern metra bandsins. Þessi net eyðast síðan á nokkrum dögum en þá hefur kræklingur framleitt nýjan spunaþráð og fest sig á bandið.
Eftir 4-6 mánuði er nauðsynlegt að grisja böndin því annars er hætt á því að kræklingurinn sem er ystur og jafnframt stærstur hrynji af bandinu til að mynda vegna mikilla hreyfinga á böndunum. En á þeim tíma hafa böndin margfaldað þyngd sína. Böndin eru hífð upp með krana í bát og þar eru skeljarnar aðskildar eftir stærð og þær stærstu teknar frá. Síðan eru þeim litlu aftur komið fyrir á bandið og nýtt net sett utan um þær því enn á ný eru þær fljótar að mynda nýjan spunaþráð. Í einhverjum tilfellum er nauðsynlegt að endurtaka þessa aðgerð þar til skeljarnar eru fullvaxta. En aldrei má grisja meira en það sem hægt er að koma aftur í sjóinn samdægurs, því skelin getur drepist ef sól skín á hana og eða hún verði fyrir miklum hitabreytingum.
Í Galicíu er vöxtur skeljanna hraðari en annarsstaðar og geta skeljar náð réttri markaðsstærð sem er 8 – 10 sentímetrar á 8 – 9 mánuðum þrátt fyrir að eðlilegt sé að það taki 13 mánuði. Hinsvegar getur of mikill þéttleiki á prammanum komið í veg fyrir þennan þroska.
Í Galicíu fæst sölukræklingur allt árið um kring. Hámarks uppskeran er í október til mars þegar mesta eftirspurnin er og skelin er best. Misjafnt hvað hvert band eða prammi gefur af sér, en að meðaltali getur hver metri af bandi gefið af sér 10 kíló af kræklingi. Á aðaluppskeru tímanum eru þær skeljar sem tilbúnar eru settar í körfur og fluttar til hreinsunarstöðva og þvegnar. Síðan settar í 15 kílóa netpoka sem dreifist svo til geymslufyrirtækja og dreifingafyrirtækja. Ef flytja á kræklinginn út er hann geymdur í sjó þar til hann er fluttur út til að hafa hann sem ferskastan.
Byggt á upplýsingum frá Ágústu Pálsdóttur, fararstjóra. Myndir Guðmundur Bjarnason, skipstjóri.