Basilíkuhjúpuð bleikja á salatbeði möndlu- og kaperssmjöri

Deila:

Bleikjan er úrvals matur, holl og bragðgóð og ekkert mál að fá hana, enda eru Íslendingar fremstir í heimi í eldi á bleikju. Bleikjuna má elda á ótal vegu og gott að hafa fjölbreytni í eldamennskunni. Þessa fínu uppskrift fundum við í uppskriftabók frá Mjólkursamsölunni, sem ber nafnið Ostur – það besta úr osti og smjöri. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Innihald:

800g beinhreinsuð bleikjuflök

Basilíkuhjúpur:

40 g kalt smjör
1 límóna, bæði safi og börkur (börkurinn er rifinn með fínu rifjárni í blandara)
½ pakkning basilíka
10 g parmesan-ostur
100 g furuhnetur

Skerið bleikjuna í 170-200 g stykki. Blandið allt hráefnið fyrir hjúpinn í matvinnsluvél þar til það er orðið mjúkt. Þá er því  smurt yfir bleikjuna og bakað í ofni við 150°C í 8-10 mínútur.

Möndlu- og kaperssmjör:

250 g smjör
50 g kapers
50 g möndluflögur
½ pakkning steinselja

Ristið möndlurnar létt í potti og bætið smjörinu saman við. Setjið kapers og saxaða steinselju saman við bráðið smjörið og berið fram með bleikjunni.

Deila: