Hrærsteiktur hörpudiskur með snjóbaunum
Við höldum okkur við framandi uppskriftir og innihald, en hollustan og gæðin eru ótvíræð. Hörpudiskur er einstaklega góður matur, en svolítið dýr. Hann fæst nú nánast eingöngu innfluttur. Veiðar á hörpudiski við Ísland hafa legið niðri að mestu í meira en áratug þar sem stofninn hrundi, en tilraunaveiðar eru nú hafnar á því og gætu þær leitt til útgáfu veiðiheimilda á ný.
Þessi uppskrift er úr bæklingnum Fiskur fyrir öll tækifæri, sem gefinn er út af Altungu. Uppskriftin er fyrir fjóra.
Innihald:
2 ½ msk. ostrusósa
2 tsk. sojasósa
½ tsk. sesamolía
2 tsk sykur
2 msk. olía
2 stór hvítlauksrif, marin
3 tsk. engifer, fínsaxað
300 g snjóbaunir
500 g hörpudiskur án hrogna
2 vorlaukar, skornir 2 sm bita
Aðferðin:
Útbúið hræristeikingarsósu með því að blanda saman ostrusósu, sojasósu, sesamolíu og sykri.
Hitið wokpönnu eða steikarpönnu yfir meðalhita, setjið olíu á pönnuna og dreifið um yfirborð hennar. Bætið við hvítlauk, engifer og hrærsteikið í 30 sek. eða þar til allt ilmar.
Bætið baununum við og sjóðið í 1 mín. Þá kemur hörpudiskurinn og vorlaukurinn allt er hitað í 1 mín. eða þar til laukurinn hefur mýkst. Hrærið hræristeikingarsósunni saman við og hitið í 1 mín. eða þar til innihaldið er heitt í gegn og vel blandað. Berið fram með hrísgrjónum.