Þorskurinn skilar norskum sjómönnum miklu

Deila:

Tölur frá Sölusamtökum norskra sjómanna, Norges Råfisklags, yfir síðasta ár sýna að aðeins einu sinni fyrr hefur verðmæti landaðs fiskafla annars en uppsjávarfisks verið jafnhátt og í fyrra. Verðmæti landaðs botnfisk- og skelfiskafla á árinu 2017 varð samtals 11,4 milljarðar norskra króna, sem svarar til 148 milljarða íslenskra króna. Aðeins á árinu 2016 varð verðmæti landaðs afla hærra, eða 149 milljarðar íslenskra króna.

Af þessu verðmæti skilaði afli af norskum bátum og skipum 123 milljörðum og er það aukning um tæpa 6,5 milljarða frá árinu 2016. Aukningin skýrst af auknum löndunum á félagssvæði  Norges Råfisklags, sem nær frá Nordmöre til Finnmerkur. Að auki kom til umtalsverð verðhækkun á þorski, sem skilaði verðmæta aukningu upp á 7,5 milljarða íslenskra króna, en heildarverðmæti landaðs þorskafla á svæðinu varð um 78 milljarðar króna. Verðmæti ýsuaflans hækkaði um þrjá milljarða, sem skýrist af auknum afla og hærra verði. Mikill samdráttur varð hins vegar í veiðum á rækju og féll verðmæti þess afla í samræmi við það, eða um 1,6 milljarða

Landanir erlendra fiskiskipa í norskum höfnum drógust verulega saman og varð verðmæti þess afla ríflega 24 milljarðar íslenskra króna. Árið 2016 lönduðu erlend skip afla að verðmæti 32 milljarðar króna. Skýringin á þessum samdrætti liggur í því að skip frá Evrópusambandinu landa selja afla sinn í minna mæli en áður í gegnum norsk sölusamtök. Þar að auki hafa landanir erlendra skipa á snjókrabba dregist verulega saman.

Ennfremur hafa landanir rússneskra skipa dregist saman um 13.000 tonn frá árinu 2016 og voru í fyrra 142.000 tonn. Engu að síður landa Rússar mest erlendra þjóða af fiski í Noregi og varð verðmæti landaðs afla frá þeim í fyrra 19,5 milljarðar.

Alls var landað 1,1 milljón tonna af fiski miðað við vigt upp úr sjó á svæði „Råfisklagets“ í fyrra. Það er fjórða árið í röð sem landanir fara yfir milljón tonn. Þorskur skilaði ríflega 60% verðmæta landaðs afla. Alls var 470.000 tonnum miðað við fisk upp úr sjó að verðmæti 94,3 milljarðar króna landað í fyrra. Það er samdráttur í magni um 2% eð 7% aukning í verðmætum miðað við árið 2016. Næst mikilvægustu tegundirnar eru ýsa, 12%, ufsi, 6%, rækja, 4%, grálúða, 4% og kóngakrabbi, 3%.

Deila: