Íslandssíld og Suðurlandssíld

Deila:

Á síðustu árum hefur borið á því að fjölmiðlar og ýmsir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja tali og skrifi um Íslandssíld þegar átt er við íslenska sumargotssíld. Þetta er ekki í neinu samræmi við hina hefðbundnu notkun hugtaksins því áður var stærsta og verðmætasta síldin úr norsk-íslenska síldarstofninum nefnd Íslandssíld.

Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Jakob Jakobsson, fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar og einn helsta síldarsérfræðing þjóðarinnar, og spurði hann þeirrar einföldu spurningar hvaða síld það væri sem nefnd væri Íslandssíld. Jakob svaraði spurningunni með eftirfarandi hætti:

 

Jakob Jakobsson.

Jakob Jakobsson.

„Íslandssíld er stærsta og besta síldin í norsk-íslenska síldarstofninum. Það var þannig að elsti hluti síldarstofnsins leitaði lengst í vestur í ætisleit og þessi síld veiddist við Ísland. Þetta var síldin sem hentaði best til söltunar og var í reynd verðmætasta síldin í veröldinni. Þessi síld var nefnd Íslandssíld og hún var kynnt og seld á mörkuðum erlendis sem Íslandssíld. Meira að segja Norðmenn seldu þessa síld sem Íslandssíld. Ef síld úr norsk-íslenska síldarstofninum náði ákveðinni stærð og gæðum þá stóð hún undir nafni sem Íslandssíld þannig að þetta heiti á síldinni var ákveðið gæðamerki. Íslensk sumargotssíld var aldrei nefnd Íslandssíld fyrr en nú upp á síðkastið og að mínu mati er rangt að gera það. Hér áður var íslenska sumargotssíldin oftast nefnd Suðurlandssíld vegna þess að hrygning fór fram við suðurströnd landsins. Mér þykir það miður ef Íslendingar geta ekki haldið í rótgrónar hefðir hvað þetta varðar auk þess sem breytingar á notkun hugtaka af þessu tagi geta valdið ruglingi og misskilningi,“ sagði Jakob.

Þegar heimildir eru kannaðar staðfesta þær með eindregnum hætti orð Jakobs Jakobssonar hér að framan. Á fyrri hluta 20. aldarinnar var ávallt talað um Íslandssíld þegar fjallað var um stóru demantssíldina sem veiddist norður af landinu og hentaði best til söltunar. Þá upplýsti tímarið Ægir í frétt árið 1937 að Norðmenn selji síld sem þeir veiða hér við land undir nafninu Íslandssíld og Íslands – Matjes. Sama er að segja um þá umfjöllun sem átti sér stað þegar norsk-íslensk síld tók að veiðast við landið á ný eftir langt hlé árið 1994. Þá var fjallað um að Íslandssíldin væri loksins komin á Íslandsmið á ný, þ.e. stærsta síldin í norsk- íslenska síldarstofninum.

Hér með skal hvatt til þess að allir hlutaðeigandi hætti að nefna íslenska sumargotssíld Íslandssíld en nefni hana þess í stað einfaldlega íslenska sumargotssíld eða Suðurlandssíld.

 

 

Deila: