Marel styrkir Forritara framtíðarinnar

Deila:

Marel hefur bæst í hóp öflugra bakhjarla Forritara Framtíðarinnar en ellefu grunnskólar hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Tilgangur sjóðsins er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

forritarar logo

Sjóðnum bárust 32 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Styrkir sjóðsins eru í formi tölvubúnaðar og fjárstyrks til þjálfunar kennara til að búa þá betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur, samtals um sex og hálf milljón króna að virði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Styrkirnir skiptast á milli ellefu skóla; Kársnesskóla, Höfðaskóla, Varmahlíðarskóla, Grunnskóla Borgarfjarðar Eystri, Víkurskóla, Bíldudalsskóla, Vatnsendaskóla, Álfhólsskóla, Kópavogsskóla, Grunnskólans í Hveragerði og Grunnskólans í Þorlákshöfn.

Frá stofnun sjóðsins árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir hátt í 40 milljónir króna.

„Þjóðir sem best standa hvað tækni varðar búa við ákveðið forskot. Forritun eða innsýn í forritun er nokkuð sem nýtist ungmennum til framtíðar, ekki ósvipað og fólk býr að því að hafa fengið kennslu í erlendum tungumálum, landafræði og öðrum námsgreinum,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar.

 

Deila: