Fiskverð komið að sársaukamörkum

Deila:

Fiskverð á Íslandi er komið upp að sársaukamörkum og hefur rokið upp að undanförnu. Hluti af skýringunni eru árstíðabundnar aðstæður en eftirspurnin eftir fiski hefur stóraukist, meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu

„Fiskverð hefur sennilega aldrei verið jafn hátt og núna. Ekki í gegnum okkar kerfi,“ segir Bjarni Rúnar Heimisson, framkvæmdastjóri Reiknistofu fiskmarkaða sem stofnuð var árið 1992. Þar fara um 20 prósent alls íslensks bolfisks í gegn, meira á sumrin þegar strandveiðar eru í gangi. Í vor fór kílóverðið á óslægðum þorski undir 300 krónurnar en nú er verðið vel á sjöunda hundrað krónur. Árlega hækkar verðið þegar strandveiðarnar klárast, sem var 22. júlí í ár, og er verðið almennt hátt á haustin. Aðstæðurnar núna eru þó einstakar því annað árið í röð hefur þorskkvótinn verið lækkaður og eftirspurnin erlendis er gríðarleg vegna minna framboðs frá Rússlandi vegna stríðsins.

„Það eru allir að þrýsta á að fá meiri fisk,“ segir Bjarni en telur þó að verðið sé komið upp að sársaukamörkum neytenda. „Ég sé ekki fyrir mér að verðið hækki mikið meira. Í fyrra vorum við í háum verðum fram í októberbyrjun. Þá fóru verðin að sveiflast, aðallega eftir veðri.“ Býst hann við að hið háa verð haldist næstu vikurnar.

Á fiskmarkaðinum í Grimsby í Bretlandi hefur íslenskur þorskur og ýsa tvöfaldast í verði. Meðalkílóverð þorsks náði allt að 7,2 pundum á mánudag. Það er tæplega 1.200 krónur. Meðalverð síðustu ára er aðeins 3 pund eða 500 krónur á þessum árstíma. Ýsan hefur hækkað álíka mikið. Hún hefur vanalega selst á 3,5 pund kílóið en á mánudag seldist ýsan á 7,8 pund, nærri 1.300 krónur. Í báðum tilvikum er um rúmlega tvöföldun kílóverðs að ræða. Breskir fisksalar hafa áhyggjur af því að verðhækkanir séu svo miklar að neytendur hætti einfaldlega að kaupa fisk. Sérstaklega þjóðarréttinn fisk og franskar, sem Bretar séu vanir að sé ódýr matur.

Deila: