„Höfum tekið stökk inn í nýja öld”
,,Það gengur mjög vel. Skip og búnaður hafa staðið fyllilega undir væntingum og ég lít svo á að með tilkomu þessara nýju skipa þá höfum við tekið stökk inn í nýja öld,“ segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK í samtali á heimasíðu HB Granda. Togarinn er nú í fyrsta túrnum eftir að millidekkið var innréttað og sjálfvirkt lestarkerfi var sett í skipið hjá Skaganum 3X á Akranesi.
,,Þótt þetta sé fyrsta ferðin þá er ekki um eiginlega veiðiferð að ræða. Við erum fyrst og fremst að prófa allan búnað sem sést best á því að af 18 manns um borð eru átta tæknimenn,“ segir Eiríkur en að sögn hans hefur allur búnaður virkað nánast fullkomlega.
,,Það hefur lítilræði komið upp varðandi aðgerðaraðstöðuna á millidekkinu en sjálfvirka lestarkerfið hefur virkað hnökralaust. Tölvubúnaðurinn og stýringarnar í brúnni eru aðalmálið. Það tekur tíma að læra fullkomlega á þennan búnað og í raun má segja að ég sé aftur sestur á skólabekk,“ segir Eiríkur en í máli hans kemur fram að það sé sannkölluð bylting að fá þetta nýja skip í stað Sturlaugs H. Böðvarssonar AK.
,,Ég segi þetta ekki til að gera lítið úr Sturlaugi, öðru nær, en það skip var orðið gamalt og allur aðbúnaður og vinnuaðstaða í nýja skipinu er margfalt betri en við höfum átt að venjast. Ég hef sjálfur prófað að vinna á millidekki og í lest á báðum skipum og munurinn er ótrúlegur.“
Tilraunaveiðiferð Akureyjar hófst að kvöldi sl. þriðjudags en vegna brælu leið miðvikudagurinn allur án þess að hægt væri að setja veiðarfæri í sjó.
,,Við erum djúpt vestur af Reykjanesi og gátum byrjað veiðar á aðfararnótt fimmtudags. Við erum að svipast um eftir karfa og horfum ekki til magns í því sambandi. Þrátt fyrir það vorum við komnir með rúmlega 30 tonn eftir sólarhringinn. Ég á von á því að við höldum til hafnar í kvöld. Svo fara nokkrir dagar í að undirbúa skipið og svo á ég von á því að við förum inn á þá áætlun sem Sturlaugur var á. Sem betur fer gátum við notað það góða skip fram á síðasta dag áður en skipt var yfir á Akurey,“ sagði Eiríkur Jónsson.