Marel umsvifamikið á UTmessunni

Deila:

Marel var umsvifamikið á UTmessunni í ár sem haldin var í Hörpu helgina 2. og 3. febrúar síðastliðinn. UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011.

Á ráðstefnudegi messunnar hélt Haukur Hafsteinsson í vöruþróun Marel erindi um hvernig hægt er að nýta sýndarveruleika og hermun (e. simulation) til þess að gera vöruþróun okkar skilvirkari. Fyrirlesturinn var haldinn í Eldborgarsal Hörpu og vakti mikla lukku og áhuga viðstaddra eins og segir í frétt frá Marel.

Hönnunarkeppni Háskóla Íslands var jafnframt haldin í 26. skipti á laugardaginn en flestir ættu að kannast við keppnina úr sjónvarpi þar sem nemendur hanna og smíða vélmenni eða róbota sem eiga að komast klakklaust gegnum þraut á palli fyrir framan áhorfendur. Í ár var hönnun brautarinnar innblásinn af náttúru Íslands en m.a. þurftu keppendur að fara um Hvalfjörð til að sækja peninga í Peningagjá og klífa loks eldfjall til að klára brautina.

Vélmennastrákarnir báru sigur úr bítum að þessu sinni og afhenti Guðbjörg Heiða, yfirmaður vöruþróunar á Íslandi, 400.000 króna sigurverðlaunin. Veitt voru einnig verðlaun fyrir frumlegustu hönnun sem róbotinn og keppandinn Freyr hlaut. Hjörvar lenti í öðru sæti og 328P hreppti þriðja sætið en Gunnar Zoega frá Origo veitti þau verðlaun að þessu sinni. Við minnum á að þáttur um keppnina verður sýndur á RÚV á vormánuðum.

Á sýningargólfinu sjálfu var gestum boðið upp á að skyggnast inn í fiskvinnsluna Vísi í gegnum sýndarveruleika sem vakti mikla lukku, þá ekki síst meðal ungu kynslóðarinnar.

 

Deila: