Þurfti að reka eftirlitsmann SH út

Deila:

Gunnar Finnbogi Jónasson er maður vikunnar á Kvótanum að þessu sinni. Hann er verkstjóri hjá Hólmstein Helgasyni ehf. á Raufarhöfn. Í fiskinum byrjaði hann 12 ára og hefur verið verkstjóri frá árinu 1975. Hólmsteinn Helgason ehf. er rótgróið fyrirtæki og gerir út tvo 15 tonna báta og verkar saltfisk fyrri hluta vetrar og fer síðan í grásleppuhrognin þegar vertíðin hefst í mars.
Gunnar segir að rólegt hafi verið hjá þeim í saltfiskinum í upphafi ársins, en aðalvertíðin sé frá febrúar og fram í mars.

Nafn?

Gunnar Finnbogi Jónasson.

Hvaðan ertu?

Raufarhöfn.

Fjölskylduhagir?

Er í sambúð, á þrjú börn uppkomin og tvö barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Hjá Hólmsteini Helgasyni ehf. sem verkstjóri í saltfiskverkun.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði 12 ára 1968 hjá Jökli og síðan sem verkstjóri hjá Jökli 1975.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er fjölbreytileikinn og mannfólkið.

En það erfiðasta?

Það var þegar kviknaði í frystihúsinu 10. desember 1984 klukkan hálf fjögur. Það þurfti að flytja allar frosnar afurðir yfir til Þórshafnar og það var ekki sofið mikið næstu sólarhringana. Sumu þurfti að henda og öðru að endurpakka.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

1980 fór ég til Ólafsfjarðar í þrjá mánuði. Það var mikil gallatíðni í frystihúsi þar og ég lenti í því að þurfa að reka eftirlitsmann SH út úr húsinu að skipun framkvæmdastjórans. En þetta fór allt saman vel fyrir rest.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þorsteinn Hansson. Alltaf léttur, duglegur og skemmtilegur, en hann lést í fyrra.

Hver eru áhugamál þín?

Hef ægilega gaman af því að horfa á íþróttir. Fólbolti er efst á listanum en annars er ég alæta á íþróttirnar. Ég er líka hlunnindabóndi að hluta til og hef mikinn áhuga á dúnrækt.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Mér finnst allur matur góður en nefni blóðsteikta nautalund.

Hvert færir þú í draumfríið?

Siglingu um Karabíska hafið.

 

 

Deila: