Einhamar tekur við nýjum bát

Deila:

Einhamar í Grindavík fékk fyrir helgina afhentan nýjan bát frá Trefjum sem fékk nafnið Vésteinn GK 88. Báturinn var sjósettur í Hafnarfirði. Vésteinn er væntanlegur til heimahafnar nú í vikunni þegar helstu prófunum á sjófærni og búnaði er lokið.

Vésteinn er þriðji báturinn í flota Einhamars en fyrir gerir fyrirtækið út Auði Vésteins SU 88 og Gísla Súrsson GK 8. Skipstjóri Vésteins verður Guðmundur Theódór Ríkharðsson.

Eins og nöfnin benda til eru þau fengin úr Gísla sögu Súrssonar. Vésteinn var fóstbróðir Gísla Súrssonar og reyndist honum vel á erfiðum stundum.

Vésteinn er samskonar bátur og Auður og Gísli en skipin eru öll smíðuð hjá Trefjum, eru tæp 30 brúttótonn og rétt tæpir 15 metrar á lengd.
Myndin er fengin af heimasíðu Grundavíkur http://grindavik.is

 

 

Deila: