Starfsfólkið fylgir Frostfiski í Fjörðinn

Deila:

Fjörutíu störf hurfu úr sveitarfélaginu Ölfusi, þegar fiskvinnslan Frostfiskur hætti allri starfsemi í Þorlákshöfn og flutti hana til Hafnarfjarðar í byrjun mánaðar. Starfsfólkið ætlar að fylgja fyrirtækinu og keyra á milli samkvæmt frétt á ruv.is.

Frostfiskur hefur í tvo áratugi verið stærsti vinnustaðurinn í Þorlákshöfn en í lok síðasta árs var tilkynnt um að fyrirtækið myndi hætta allri starfsemi á svæðinu. Nú í byrjun febrúar var svo skellt í lás.

„Við eigum nú eftir að sjá það hvaða áhrif þetta hefur, en þetta er vissulega ekki jákvætt svona í byrjun. Það gefur auga leið. En vonandi eru skammtímaáhrifin, ef við getum talað um neikvæð áhrif, að það sé bara til skamms tíma,” segir Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri í Ölfusi í samtali við ruv.is.

Frostfiskur er þó ekki að loka, heldur hefur starfsemin alfarið verið flutt til Hafnarfjarðar. Fjörutíu manns störfuðu hjá fyrirtækinu í Þorlákshöfn.

„Það stóð öllum til boða að halda áfram hjá fyrirtækinu og mér skilst að á fjórða tug starfsmanna sem munu fylgja fyrirtækinu á nýjan stað. En auðvitað er þetta óþægilegt inngrip í líf fólks að þurfa að keyra um langan veg til vinnu. En eins og veðrið er núna, þetta er ekki spennandi,” segir Gunnsteinn.

Hús Frostfisks er nú til sölu en Gunnsteinn vonast til að það gangi fljótt fyrir sig og að þar hefjist ný starfsemi.

„Þetta er gamalt hús og kannski raunverulega grunnur að sögu þessa samfélags sem að hér hefur byggst upp í Þorlákshöfn. En hvað um húsið verður, ég veit það ekki. Húsið er til sölu og ef það eru áhugaverðir kaupendur þarna úti með áhugaverð tækifæri, þá bara endilega skoða húsið, þetta er stórt og mikið hús.”

Hann segir að þó að það hafi vissulega verið áfall fyrir bæjarfélagið að missa störfin úr bænum sé fólk bjartsýnt á atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Nóg sé af tækifærum.

„Jú, jú þetta er ákveðið áfall en það er ekki þannig að það sé einhver heimsendir hér í Þorlákshöfn eða sveitarfélaginu Ölfusi, langt því frá.”

 

Deila: