Íslenska rafeindavogin fertug

Deila:

Íslenska rafeindavogin sem hönnuð var sérstaklega fyrir íslenskan sjávarútveg kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir 40 árum. Hún var sannkölluð bylting í vigtun, bylting sem síðan breiddist út um heiminn og skilaði miklum úrbótum í vinnslu og pökkun sjávarafurða. Sjóvogin, sem fylgdi í kjölfarið var jafnvel enn meiri bylting, en með henni var hægt að vigta fisk með mikilli nákvæmni í haugasjó á hafi úti, nokkuð sem aldrei hafði verið hægt áður. Þessi uppfinning varð til á tveimur stöðum á nánast sama tíma, hjá ísfirska tæknifyrirtækinu Pólnum og í Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Marel var stofnað á grunni vinnunnar hjá Raunvísindastofnun og Pólinn stofnuðu frumkvöðlar á Ísafirði.

Hugbúnaður í tölvuflögu

Upphaflega kemur krafan um rafeindavog upp eftir að tölvuflagan var fundin upp, að setja hugbúnaði í tölvuflögu sem gerist á á árunum 1975 til 1977. Árið 1978 birtast fyrstu rafeindavogirnar framleiddar á Íslandi, að miklu leyti fyrir stuðning íslensku frystihúsanna og þá einkum á Vestfjörðum. Fyrsta vogin var frá Pólnum á Ísafirði (síðar Póls) en fljótlega í kjölfarið kom vog úr Háskólanum frá ungum mönnum við raunvísindastofnun og upp úr því spratt Marel.
Fyrsta vogin var sett upp í Norðurtanganum á Ísafirði, sem innvigtunarvog fyrir afla. Var einskonar karavigt. Í kjölfarið koma líka svokallaðar pökkunarvogir frá bæði Póls og Marel. Þá var staðan þannig í frystihúsum á Íslandi að hver kona sem starfaði við pökkun í frystihúsum hafði eina vog hjá sér. Þannig að í stórum frystihúsum gátu verið allt að 60 til 80 vogir. Þetta var algjör bylting en vogirnar leystu af hólmi svokallaðar skífuvogir frá Avery í Bretlandi.
Þetta hefði vafalítið orðið seinna á ferðinni ef ekki hefði komið til framlag og áhugi frystihúsanna. Pólsvogirnar voru að segja má í samstarfi við frystihús innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Marel var í samstarfi við Sjávarafurðadeild Sambandsins. Seinna meir runnu þessir frumkvöðlar og keppinautar saman undir merkjum Marel.

Vogirnar samtengdar

„Það sem breyttist með þessum rafeindavogum var að menn fengu betri  upplýsingar um það sem var að gerast og mun nákvæmari vogir. Þá var hægt að vigta bæði afurð og afskurð með mikilli nákvæmi til að reikna út bónus til starfsfólksins og fá nákvæmari vigt á pakkningar. Í fyrstu voru þessar tölur skrifaðar niður og settar inn í stóra IBM-tölvur, sem reiknuðu bónusinn út. 1982 kemur Póls svo á markaðinn með tölvutengingu í kjölfar PC-tölvubyltingarinnar. Þá voru allar vogirnar tengdar saman og við vorum með tölvufyrirtæki á Ísafirði sem tengdi saman allan þennan búnað og í lok hvers dags lágu fyrir niðurstöður um alla megin þætti vinnslunnar. Við vorum með allar upplýsingar til reiðu hvenær sem var á hverju snyrti- og pökkunarborði. Þessi samtengin var ekki síður bylting en vogirnar sjálfar,“ segir Jónas Ágústsson, sem var einn af frumkvöðlunum hjá Pólnum á sínum tíma og er enn í bransanum.
Þessi sami grunnur en enn notaður í dag, hráefnið er vigtað og upplýsingarnar fara inn í hugbúnaðarpakka, sem heldur utanum þær allar. Þannig er samstundis hægt að sjá hver staðan er hverju sinni.

Jónas Ágústsson til vinstri ásamt félaga sínum til áratuga, Hilmari Sigurgíslasyni. Þeir reka saman fyrirtækið Eltak, sem selur rafeindavogir og og fjölmargt annað af rafeindabúnaði fyrir sjávarútveginn.

Jónas Ágústsson til vinstri ásamt félaga sínum til áratuga, Hilmari Sigurgíslasyni. Þeir reka saman fyrirtækið Eltak, sem selur rafeindavogir og og fjölmargt annað af rafeindabúnaði fyrir sjávarútveginn.

Sjóvogin prufuð í Djúpbátnum

Enn ein tækninýjung í rafeindavogum á heimsmælikvarða verður 1985 á Íslandi hjá Póls og Marel.   Þá er í fyrsta sinn í heiminum sett á markað tölvuvog fyrir fiskiskip sem gat vigtað réttan þunga óháð hreyfingu skipa á sjó.  Fyrsta vogin með þessum eiginleika var smíðuð hjá Póls á Ísafirði og prófuð við frumstæð skilyrði um borð í Djúpbátnum Fagranesi á venjubundinni siglingu skipsins um Ísafjarðardjúp. Fyrsta alvöru þolraun þessarar uppfinningar fór fram í ágústbyrjun 1985 um borð í  b/v Sólrúnu ÍS sem var gerð út frá Bolungarvík.  Sólrún ÍS var á rækjuveiðum og pakkaði og frysti aflann um borð. Vogin reyndist vel og stóðst þær kröfur sem gerðar voru til hennar. Röng vigtun vegna halla og óstöðugrar vigtunar vegna veltings hafði verið mikið vandamál, en Póls-skipavogin vigtaði með tveggja gramma nákvæmni út á sjó. Fáeinum árum síðar var nákvæmnin orðin margfalt meiri. Þann 23. ágúst 1985 var í fyrsta sinn sagt frá þessari nýjung í fjölmiðlum á Íslandi og vakti hún strax mikla athygli innan lands sem utan. Tíu árum síðar höfðu Íslenskar skipavogir verið seldar til meira en 30 landa um heim allan.

Stöðug framþróun

Þetta þróast svo yfir í alls kyns innmötun og flokkun. Flokkararnir flokkuðu fiskbita, fiskflök og saltfisk svo dæmi séu tekin eftir stærð og þyngd. Þá koma samvalsvélar, sem velja fiskistykki saman í pakkningar, þannig að þær verði allar jafnþungar og með ákveðnum fjölda af fiskistykkjum. Það koma flæðilínur, en með þeim er ekki lengur þörf fyrir vog á hverri vinnslustöð. Þess í stað eru upplýsingar skráðar inn á vinnslustöðina og frá henni. Síðan kemur tölvusjón sem metur hvert flak og vatnsskurðarvél sker flökin í þá bita sem hentar  best hverju sinni. Þetta er í stöðugri þróun ennþá sem miðar að aukinni nýtingu, meiri vinnsluhraða og nákvæmari vigt og skurði.
Fiskvinnslan hefur sýnt mikla forystu á þessu sviði og byggt upp vinnslulínur á síðustu árum í samvinnu við Marel og fleiri fyrirtæki, sem hafa þróað og hannað margvíslegan búnað til vigtunar, flokkunar og samvals, aðferðir sem hafa nýst í framleiðslu annarra matvæla eins og kjúklinga og kjöts. Hugmyndir sem urðu til norður á Ísafirði og í Háskóla Íslands fyrir fjórum áratugum til að auka flæði og nýtingu í fiskvinnslu, eru nú notaðar um allan heim og þar er Marel með afgerandi forystu.

 

Þessi umfjöllun birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri sem Athygli gefur út. Blaðið má lesa á eftirfarandi slóð:

https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

 

 

 

Deila: