Loðnan brellin

Deila:

Loðnan hagar sér heldur skringilega nú undir lok vertíðar. Fyrir helgi voru skipin að fá afla á Faxaflóa, við Vestmannaeyjar og fyrir norðan land. Loðnan sem veiddist nyrðra þótti henta til Japansfrystingar en syðra var lögð áhersla á að fá hrognaloðnu. Í gær brá svo við að lítið aflaðist við Eyjar en þá hófust veiðar á Breiðafirði. Farið er yfir gang mála á heimasíðu Síldarvinnslunnar:

Beitir NK landaði 1.800 tonnum í Helguvík á laugardag og voru unnin hrogn úr hluta aflans. Beitir er nú á Breiðafirði og freistar þess að veiða 1.500 tonn en þá hafa Síldarvinnsluskipin lokið loðnuveiðum á vertíðinni.

Bjarni Ólafsson AK er að landa 1.600 tonnum í Neskaupstað og fékkst sú loðna að mestu í Faxaflóa. Unnin eru hrogn úr aflanum.

Börkur NK fékk 1.200 tonn við Eyjar á laugardag og bíður nú löndunar í Neskaupstað. Gert er ráð fyrir hrognavinnslu úr aflanum.

Vilhelm Þorsteinsson EA landaði 1.700 tonnum í Helguvík í gær og var stór hluti aflans kreistur. Vilhelm er nú á Breiðafirði.

Polar Amaroq er fyrir norðan land. Skipið fékk 500-600 tonn á Skagagrunni aðfaranótt föstudags og hefur síðan fengið 800 tonn í tveimur köstum á Skjálfanda. Loðnan fyrir norðan hentar vel til frystingar eins og fyrr greinir og var aflinn frystur um borð. Þegar þetta er ritað hafa Polarmenn lokið frystingu og eru um 500 tonn í frystilestum skipsins. Munu þeir síðan  freista þess að halda áfram veiðum og klára kvóta sinn áður en haldið verður til hafnar. Fleiri skip voru fyrir norðan og fengu afla meðal annars út af Gjögri og inni á Eyjafirði.

Á framansögðu sést að loðnuvertíðin er á síðustu metrunum og eru flest skipin að ljúka veiðum þessa dagana.

Myndin er frá loðnumiðunum austan við Vestmannaeyjar í gær. Ljósm: Helgi Freyr Ólason

 

 

Deila: