Færri nýta sér línuívilnun

Deila:

Að loknum fyrri helmingi fiskveiðiársins er ljóst að mun færri nýta sér línuívilnun en í fyrra.  Alls hafa 109 bátar fengið ívilnun en voru 149 á 2016/2017.

Línuívilnun kom til framkvæmda 1. febrúar 2004 í ýsu og steinbít.  Þorskurinn bættist við 1. september 2014.  Á síðasta fiskveiðiári bættust við karfi, langa og keila.   „Allt frá upphafi hefur aðgerðin verið gríðarlega mikilvæg og gert smábátaeigendum kleift að stunda öfluga línuútgerð þar sem beitt er í landi með tilheyrandi atvinnusköpun,“ segir í frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. Þar segir ennfremur:

„LS hefur hin síðari ár margbent á og samþykkt ályktanir til stjórnvalda þar sem krafist hefur verið að línuívilnun nái til allra dagróðrabáta þar með talinna báta með beitningavél.  Á síðasta aðalfundi var svo gengið skrefinu lengra og bent á mikilvægi aflaívilnunar við stjórn fiskveiða.  Innan hennar væri auk línuívilnunar, ívilnun á veiðiheimildir þeirra sem selja afla í gegnum uppboð á fiskmörkuðum og ívilnun til handfærabáta.

Í greinargerð með samþykktunum var bent á ferskleika aflans, veiðarnar væru umhverfisvænni en aðrar veiðiaðferðir, olíunotkun minni en veiðar með dregnum veiðafærum, áhrif á sjávarbotninn lítil sem engin, slysaveiðar á sjávarspendýrum nánast óþekkt, auk annarra þátta.

Nú er komið í ljós að einn fylgifiska hækkunar veiðigjalds með tilheyrandi rekstrarerfiðleikum er mikil fækkun þeirra báta sem gert hafa út á línu og fengið línuívilnun.   Fækkunin hefur m.a. orðið til þess að aðeins 63% ívilnunar í þorski nýttust til ívilnunar á fyrri helmingi fiskveiðiársins.

Skora á stjórnvöld

LS ítrekar hér með samþykkt aðalfundar og skorar á stjórnvöld að bregðast strax við þessari þróun með því hækka ívilnunarprósentu úr 20 í 30 og allir dagróðrabátar undir 30 brt. fái rétt á sömu ívilnun án tillits til þess hvernig línan er beitt.“

 

Deila: