Ofnbökuð bleikja með chili, hvítlauk og ólífuolíu

Deila:

Heimskautableikja, sem oftast er einfaldlega kölluð bleikja, er laxfiskur sem dregur nafn sitt af rauðbleikum kvið og lifir nyrst allra laxfiska í heiminum. Heimkynni bleikju eru í súrefnisríkum, köldum vötnum á norðurhveli jarðar sem frjósa ekki til botns. Hún lifir einkum á botndýrum, svo sem rykmýslirfum, svifdýrum auk ýmissa stórra hryggleysingja eins og vatnabobba.

Í stórum stöðuvötnum hér á landi hafa myndast sérstök afbrigði, t.a.m. lifa fjórar gerðir bleikju í Þingvallavatni sem nefnast sniglableikja, dvergbleikja, sílableikja og murta. Einnig er til bleikja sem lifir í sjó, jafnan kölluð sjóbleikja, en hún gengur upp í ferskvatn til að hrygna. Stærð bleikjunnar er breytileg eftir svæðum og fyrrnefndum afbrigðum, en stærsta bleikja sem veiðst hefur á Íslandi var 87,5 cm að lengd og um 10 kg að þyngd. Tegundin verður þó sjaldnast mikið þyngri en 500 g.

Bleikja er vinsæll eldisfiskur og eru aðstæður til bleikjueldis hérlendis einkar hagstæðar vegna jarðvarma sem nýtist við framleiðslu seiða og aðgengis að hreinu vatni. Árið 2016 voru 4.000 tonn framleidd sem gerir Ísland að stærsta bleikjuframleiðanda heims.
Þessi texti er fenginn af heimasíðunn fiskurimatinn.is og sömuleiðis uppskriftin hér að neðan, en hún er fyrir 4.

Innihald:

  • 800 g bleikja
  • 60 ml smjör
  • 60 ml ólífuolía
  • 6 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • Safi úr ½ sítrónu
  • 1 tsk reykt paprikukrydd
  • ½ tsk chili-flögur
  • Salt og pipar

Aðferð:

Bræðið smjörið og blandið ólífuolíunni saman við. Setjið hvítlauk, chili, paprikukrydd, salt og pipar saman við ásamt safanum úr sítrónunni. Hitið varlega þar til laukurinn er eldaður. Hellið yfir fiskinn og bakið í vel heitum ofni við 220°C í u.þ.b. 6 mín. og berið fram.

 

Deila: