Laxeldi ætti ekki að hafa neikvæð áhrif á villta laxastofna

Deila:

Þó svo að um sé að ræða innblöndun eldislaxa í veiðiár með villtum laxastofnum upp á 5 til 10 prósent sjást nær engar breytingar á 50 til 100 árum, í stærð smárra og fullorðinna laxa, né hve mikinn fisk áin framleiðir, né heldur breytingar á endurheimtum laxa eftir sjógöngu.

Þetta er niðurstaða Kven Glover en hann  er yfirmaður rannsókna á Hafrannsóknastofnun Noregs og prófessor við Bergenháskóla og kemur fram í viðtali við hann í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv, þann 18 mars sl. Prófessor Glover hefur leitt vinnuna við að þróa líkan sem sýnir hvernig erfðaeiginleikar eldislaxa hafa áhrif á villta laxastofna.

Séu niðurstöður Kevin Glover heimfærðar á Ísland og skoðaðar með hliðsjón af áhættumati Hafrannsóknastofnunarinnar,  ætti laxeldi í Ísafjarðardjúpi  og aukið eldi á Austfjörðum ekki að hafa neikvæð áhrif á villta laxastofna.

Setja umræður um erfðablöndun í nýtt ljós

Þetta eru sláandi niðurstöður og hljóta að teljast mikið innlegg í umræðuna um áhættumat sem unnið hefur verið af Hafannsóknastofnun vegna fiskeldis hér á landi. Hafrannsóknastofnun hefur miðað við að innblöndunin megi ekki fara yfir 4 prósent. En samkvæmt niðurstöðum Glover bíða villtir laxastofnar ekki tjón þó svo að innblöndunin verði á bilinu 5 til 10 prósent.  Það er því ljóst að þessar niðurstöður sæta miklum tíðindum og hljóta að setja umræður um áhættuna af erfðablöndun í algjörlega nýtt ljós.

Í áhættumati Hafrannsóknastofnunarinnar frá því á sl. sumri gæti innblöndun í Laugardalsá og Langadalsá/ Hvannadalsá, numið um 7 prósentum og vegna Breiðdalsár á Austfjörðum um 8 prósentum. Það er þessi innblöndun sem veldur því að samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar mælir stofnunin ekki með því að laxeldi sé stundað í Ísafjarðardjúpi og verði 30 þúsund tonnum minna á Austfjörðum en burðarþolsmat segir til um.

„Ekki miklar afleiðingar“

Samkvæmt niðurstöðu Glover myndi innblöndun í því magni sem áhættumat Hafrannsóknastofnunin mælir ekki hafa skaðleg áhrif á villta laxastofna þó laxeldi væri stundað í Ísafjarðardjúpi og samkvæmt burðarþolsmati á Austfjörðum.

„Niðurstaðan bendir til að við búumst ekki endilega við að sjá miklar afleiðingar af hlutfallslega lítilli innblöndun við eldislaxa á hrygningarstöðvum“, segir prófessorinn.

Prófessor Glover er þekktur vísindamaður á sínu sviði, yfirmaður rannsókna á Hafrannsóknastofnun Noregs og prófessor við Bergenháskóla. Hann hefur leitt vinnuna við að þróa líkan sem sýnir hvernig erfðaeiginleikar eldislaxa hafa áhrif á villta laxastofna.

Í áhættumatsskýrslu Hafrannsóknastofnunar frá því á síðasta sumri er vitnað í fræðigreinar hans og Erfðanefnd Landbúnaðarins, sem hefur verið ákaflega gagnrýnin á laxeldi, bauð honum á fund fyrr á þessu ári, þar sem hann var aðalræðumaður.

Frétt fengin af bb.is

 

Deila: