Meiri afli skilar minni tekjum

Deila:

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 110 milljörðum króna samanborið við tæplega 133 milljarða árið 2016. Aflaverðmæti úr sjó hefur því minnkað um 23 milljarða eða sem nemur 17,3% samdrætti á milli ára. Aflamagn árið 2017 var 1.177 þúsund tonn, samanborið við 1.067 þúsund tonn árið 2016 sem er 10,2% aflaaukning milli ára. Aflaverðmæti í desember nam rúmum 7,4 milljörðum samanborið við 6,6 milljarða í desember fyrra árs.

Aflaverðmæti lækkar því umtalsvert á síðasta ári, þrátt fyrir að heildarafli á árinu hafi aukist frá fyrra ári um 107.000 tonn miðað við árið áður. Skýringuna á minna verðmæti fyrir meiri afla má fyrst og fremst rekja til samdráttar á bolfiskveiðum um 6%, en bolfiskurinn skilar að öllu jöfnu mestum tekjum. Af botnfisktegundunum varð svo 4% samdráttur í þorskafla. Þrátt fyrir að loðnuafli hafi aukist um 96.000 tonn og kolmunnaafli um tæp 40.000 tonn nær það ekki til að vega upp á móti samdrætti í bolfiskinum. Þann samdrátt má svo að miklu leyti rekja til verkfalls sjómanna, sem stóð frá því í desember og fram í febrúar. Auk aflasmadráttar í bolfiski hefur verið einnig lækkað.

Verðmæti botnfisks 2017 nam 76,2 milljörðum á árinu sem er samdráttur um 17,7% frá fyrra ári. Af botnfisktegundum var þorskur sem fyrr verðmætastur en aflaverðmæti þorsks á síðasta ári nam tæpum 48,7 milljörðum króna sem er 16% minna en árið 2016. Verðmæti flatfiskafla var 7,5 milljarðar á síðasta ári sem er 17,3% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla nam 23,8 milljörðum sem er 14,6% minna en árið 2016. Aflaverðmæti loðnu jókst um 35,6% en verðmæti síldar og makríls dróst saman á milli ára. Verðmæti skel- og krabbadýra var rúmir 2,4 milljarðar á síðasta ári sem er 29,8% samdráttur frá árinu 2016.

Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 60 milljörðum króna árið 2017 sem er samdráttur um 14,5%  frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam rúmum 16,4 milljörðum og dróst saman um 16,3%. Aflaverðmæti sjófrystingar dróst einnig saman á milli ára, nam rúmum 29 milljörðum samanborið við rúma 37 milljarða árið 2016.

Á myndinni er landað úr Hrafni GK í Grindavík. Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Verðmæti afla 2016–2017
Milljónir króna Desember Janúar-desember
  2016 2017 % 2016 2017 %
             
Verðmæti alls 6.566,1 7.452,5 13,5 133.021,2 109.953,3 -17,3
             
Botnfiskur 4.973,4 6.107,0 22,8 92.649,1 76.244,4 -17,7
Þorskur 3.206,8 4.033,7 25,8 58.001,6 48.716,9 -16,0
Ýsa 525,4 661,4 25,9 9.278,7 7.948,3 -14,3
Ufsi 414,2 519,7 25,5 8.476,5 6.428,4 -24,2
Karfi 647,5 610,4 -5,7 11.121,7 8.836,7 -20,5
Úthafskarfi 0,0 0,0 597,4 333,3 -44,2
Annar botnfiskur 179,5 281,8 57,0 5.173,2 3.980,9 -23,0
Flatfisksafli 329,1 359,1 9,1 9.060,4 7.492,0 -17,3
Uppsjávarafli 1.225,3 935,0 -23,7 27.837,4 23.777,9 -14,6
Síld 705,9 216,7 -69,3 6.583,7 4.464,9 -32,2
Loðna 0,0 0,0 4.947,9 6.709,4 35,6
Kolmunni 519,4 718,3 38,3 5.409,0 4.078,1 -24,6
Makríll 0,0 0,0 10.896,7 8.525,4 -21,8
Annar uppsjávarafli 0,0 0,0 0,1 0,0 -43,7
Skel- og krabbadýraafli 38,2 51,4 34,4 3.474,3 2.439,0 -29,8
Humar 0,0 0,0 -100,0 889,6 833,6 -6,3
Rækja 14,9 21,5 43,9 2.192,7 1.231,0 -43,9
Annar skel- og krabbadýrafli 23,3 29,9 28,4 392,0 374,3 -4,5
Annar afli 0,0 0,0 0,0 0,0

 

Deila: